Innlent

Allt sem þú þarft að vita um nýja kílómetragjaldið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eigendur bíla þurfa að hugsa um kílómetragjald á nýju ári.
Eigendur bíla þurfa að hugsa um kílómetragjald á nýju ári. Vísir/Vilhelm

Frá og með deginum í gær er öllum eigendum ökutækja óháð orkugjafa skylt að greiða kílómetragjald. Eigendur bifhjóla og fólksbíla þurfa nú að skrá kílómetragjald að lágmarki einu sinni á ári á meðan eigendur vörubíla þurfa að gera það að lágmarki á sex mánaða fresti. Síðasti dagur skráninga er 20. janúar 2026 en sé engin skráning gerð fyrir 1. apríl verður að greiða vanskráningargjald og fara með bílinn á skoðunarstöð.

Líkt og fréttastofa hefur greint frá var gjaldið samþykkt á Alþingi í desember og tók gildi 1. janúar 2026. Gjaldið fer eftir þyngd ökutækisins en öll ökutæki undir 3500 kílóum, sem er viðmiðið fyrir hefðbundin ökuréttindi, borga sama gjald eða 6,95 krónur á hvern ekinn kílómeter. Samhliða lækkar gjald á eldsneyti líkt og komið hefur fram.

Vanskráningargjald í apríl

Farið er yfir öll helstu atriði sem eigendur bíla þurfa að hafa í huga inni á vefnum Ísland.is. Þar koma meðal annars fram mikilvægar dagsetningar fyrir fyrstu skráningu.

20. janúar er síðasti skráningardagur. Skrá þarf kílómetrastöðuna á Mínum síðum á Ísland.is eða í Ísland.is appinu í síðasta lagi þennan dag. 1. febrúar 2026 er svo fyrsti gjalddagi kílómetragjalds fyrir akstur í janúar. Reikningurinn byggist á reiknuðum meðalakstri eða áætlun ríkisskattstjóra um meðalakstur ef ekki eru til tvær skráningar kílómetrastöðu. Eindagi er 14 dögum síðar.

1. apríl 2026 þarf svo að greiða vanskráningargjald ef kílómetrastaða hefur ekki verið skráð. Vanskráningargjaldið nemur tuttugu þúsund krónum.

„Ef engin skráning hefur verið gerð fyrir 1. apríl getur þú ekki lengur skráð rafrænt og verður að fara með bílinn á skoðunarstöð til að láta lesa af mælinum. Vanskráningargjald fellur niður ef þú mætir á skoðunarstöð innan 30 daga frá álagningu gjaldsins.“

Tíðni og framkvæmd skráninga

Tekið er fram að fyrir bifhjól og bíla, eftirvagna og dráttarvélar upp að tíu tonnum þurfi að skrá kílómetrastöðu að lágmarki einu sinni á ári. Leyfilegt er hinsvegar að skrá stöðuna á þrjátíu daga fresti. Skráningin skal gerð af eiganda eða umráðamanni bíls, faggiltri skoðunarstofu eða við reglubundna skoðun.

Ef viðkomandi skráir ranga tölu getur hann skráð stöðuna aftur sama dag og þá gildir seinni talan. Á miðnætti lokast svo fyrir skráningar næstu þrjátíu daga.

„Ef ekki næst að leiðrétta skráninguna innan dagsins og of há kílómetrastaða skráð þarf að fara með ökutækið í álestur á skoðunarstöð til þess að skrá inn rétta stöðu.“

Ef meira en heilt almannaaksár er liðið frá síðustu skráningu getur viðkomandi ekki skráð stöðuna lengur sjálfur og þarft að láta skrá stöðuna hjá faggiltri skoðunarstofu. Þá hækkar áætlunin upp á hærri viðmiðunartölur (60 km/dag fyrir einstaklinga og 165 km fyrir fyrirtæki og stofnanir). Auk þess leggst á vanskráningargjald sem nemur tuttugu þúsundum fyrir bíla upp að tíu tonnum og fjörutíu þúsund fyrir bíla sem eru þyngri en tíu tonn.

Við eigendaskipti eða skráningu á nýjum umráðamanni bíls í ökutækjaskrá þarf að skrá kílómetrastöðu á akstursmæli. Kaupandi eða nýr umráðamaður þarf að samþykkja skráða stöðu kílómetramælis. Við eigendaskipti er uppgjör sent á seljanda. Nýr eigandi tekur við greiðslu kílómetragjalds næta dag eftir skráningu á eigendaskiptum.

Smári Jökull Jónsson fréttamaður Sýnar fór yfir málið í kvöldfréttum í desember.

Má synja um skoðun sé kílómetragjaldið ekki greitt

Fram kemur á Ísland.is að þegar þú skráir kílómetrastöðu er gert uppgjör sem leiðréttir greiðslurnar þínar aftur í tímann. Gerður er upp mismunur á áætluðum akstri og raunakstri á tímabilinu.

Dæmi: Ef liðnir eru 100 dagar milli skráninga og þú keyrðir 4.000 km, þá er meðalaksturinn 40 km á dag á tímabilinu.

- Ef áætlunin gerði ráð fyrir að meðalaksturinn væri 50 km/dag þá áttu inneign. Ef þú skuldar ríkissjóði þá gengur inneignin upp í skuldina.

- Ef áætlunin byggði á að meðalaksturinn væri 30 km/dag þá hefur þú greitt of lítið og færð reikning fyrir mismuninum.

Ef þú skráir ekki innan tímamarka hækkar áætlun á meðakstri frá þeim tíma samkvæmt áætlun ríkisskattstjóra. Við hverja skráningu á raunakstri er gert uppgjör. Gjaldið er eftirágreitt og greiðsluseðill er sendur í netbanka.

Fram kemur á Ísland.is að meðal afleiðinga þess að greiða ekki kílómetragjaldið sé synjun um reglubundna skoðun, ekki sé hægt að framkvæmda eigendaskipti á bílnum og að fjarlæga megi númeraplötur af bílnum ef kílómetragjald hefur ekki verið greitt á eindaga eða ef vanskráningargjald hefur ekki verið greitt innan þriggja mánaða og kílómetrastaðan enn óskráð. Þá má einnig krefjast nauðungarsölu og framkvæma má fjárnám.

Sjá nánar inni á Ísland.is.


Tengdar fréttir

Kílómetragjaldið bitni helst á sparneytnum eldsneytisbílum

Formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir nýsamþykkt lög um kílómetragjald helst bitna á eigendum sparneytinna eldsneytisbíla. Hann segir breytinguna furðulega þar sem hún sé ekki í þágu vistvænna samgangna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×