Enski boltinn

Aganefndin í fríi og Romero fær að spila í dag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Cristian Romero tímasetti rauða spjaldið vel. 
Cristian Romero tímasetti rauða spjaldið vel.  Vísir/Getty

Cristian Romero er búinn að taka einn leik út í banni eftir að hafa fengið rautt spjald gegn Liverpool á dögunum en gæti verið dæmdur í eins leiks bann til viðbótar, hann má samt spila með Tottenham gegn Brentford í kvöld.

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins mun nefnilega ekki úrskurða í málinu fyrr en á morgun, þegar venjuleg vinnuvika hefst aftur eftir áramótafrí.

Fyrirliðinn Romero fékk tvö gul spjöld og þar með rautt í leik Tottenham og Liverpool þann 20. desember. Fyrir það fékk hann eins leiks bann en hegðun hans og viðbrögð við rauða spjaldinu eru ástæða þess að hann er ákærður og gæti fengið lengra bann.

„Hann er klár í slaginn. Ég veit ekki betur en að ákvörðun verði tekin eftir leikinn“ sagði þjálfari Tottenham, Thomas Frank, á blaðamannafundi liðsins í gær.

Tottenham situr í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en er aðeins fimm stigum frá fimmta sætinu og getur klifið upp töfluna með sigri á útivelli gegn Brentford í kvöld.

Leikur liðanna hefst klukkan 20:00 og verður í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×