Umræðan

Árið sem er að líða

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Við upphaf ársins gætti dálítillar óvissu en þó voru flest bjartsýn enda á íslenskt hagkerfi ýmislegt inni. Árið 2024 voru kjarasamningar gerðir til lengri tíma en oft áður og friður ríkti því að mestu á vinnumarkaði þetta árið. Vonir stóðu til þess að verðbólga mundi síga í átt að verðbólgumarkmiði og slíkt sig stóð yfir til marsmánaðar þegar tók að gæta nokkurrar stöðnunar en frá þeim tíma hefur árstaktur verðbólgu rokkað milli 3,7 og 4,5%. Eins og flestir þekkja eru það fyrst og fremst aðstæður á húsnæðismarkaði sem viðhalda verðbólgu. Nokkrum sinnum á árinu nálgaðist ársbreyting neysluverðsvísitölu án húsnæðis verðbólgumarkmiðið.

Einkaneysla

Að kaupum á ökutækjum frátöldum var einkaneyslan í ágætu horfi 2024. Að einhverju leyti má halda því fram að borið hafi á merkjum samdráttar einkaneyslunnar á fyrri hluta annars árshelmings. Þó endanlegar tölur liggi fyrir virðist sú staða hafa breyst töluvert það sem eftir leið ársins. Í samskiptum við Norræna kollega kemur reglulega á daginn hve þrautseigir íslenskir neytendur eru.

Jákvæð árslok

Verslunarfólk var upp til hópa bjartsýnt undir lok ársins. Nóg var að gera í aðdraganda jólanna og álit margra að sala væri umfram væntingar. Afsláttardagar í nóvember voru lengri en áður og það kann að hafa haft sitt að segja hvort sem litið er til sölu eða álags. Ýmsir nýttu tækifærið og stilltu opnunartíma í desember í meira hóf en oft áður. Innlend netverslun virðist hafa vaxið meira en gert var ráð fyrir. Þó dregið hafi úr erlendri netverslun á haustmánuðum virðist hún hafa tekið við sér að nýju í nóvember. Óhætt er að halda því fram að bílasala hafi tekið kipp eftir að fram komu tillögur um hækkun vörugjalda upp úr miðjum október. Á móti ríkir töluverð óvissa um næsta ár einkum hjá söluaðilum nýrra bíla. Samfara kólnun á byggingarmarkaði var sala á byggingarvörum torsóttari, einkum þegar leið á árið og við blöstu áföll m.a. í stóriðju. Þjófnaðarmál og öryggismál í verslun urðu alvarlegri en áður en í ljósi viðhorfsbreytingar á vettvangi stjórnvalda standa vonir til þess að við þeim verði brugðist með harðari hætti.

Samskipti við stjórnmálamenn voru önnur en verið hafði en þeim má helst lýsa þannig að ráðherrar eigi í flestum tilvikum síðasta orðið en ekki Alþingi.

Á ýmsum sviðum þjónustu var árið enn eitt ár aðlögunar eftir annasöm ár í kringum heimsfaraldurinn. Áskoranir blasa við vöruflutningum hvort heldur er milli landa og innanlands. Við millilandasiglingum blasir kostnaðarauki vegna kolefnistengdra álaga auk þess sem væringar í tollamálum höfðu áhrif á virðiskeðjur. Lögfesting kílómetragjalds á öll ökutæki mun að einhverju leyti skapa flækjur í landflutningum. Á sama tíma hefur umræða um ástand vegakerfisins verið töluverð og hafa af einhverjum ástæðum beinst að flutningunum sem slíkum þó fyrir liggi að viðhald og uppbygging kerfisins hafi bæði verið vanfjármögnuð og vanhönnuð um langa hríð. Ýmis áhugaverð þjónustufyrirtæki uxu á árinu og það verður áhugavert að fylgjast með vegferð þeirra.

Ný ríkisstjórn

Ný ríkisstjórn tók við í upphafi ársins og hafði uppi orð sem mátti túlka þannig að áhersla yrði lögð á viðhald og uppbyggingu verðmætasköpunar. Þó stjórnin hafi stígið skref í átt að hagræðingu í ríkisrekstri má þó segja að fyrsta ár hennar hafi haft sterkan svip varðstöðu um tekjustofna og tekjumöguleika. Samskipti við stjórnmálamenn voru önnur en verið hafði en þeim má helst lýsa þannig að ráðherrar eigi í flestum tilvikum síðasta orðið en ekki Alþingi. Það er vonandi að Alþingi verði í betur í stakk búið til að gæta að hagsmunum almennings og fyrirtækja þegar fram líða stundir.

Fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar voru afgreidd skömmu fyrir jól og þeim tengt voru skattar í ýmsu tilliti hækkaðir. Þegar þröngir skattstofnar fá á sig verulega skattahækkun má ávallt hafa áhyggjur af afleiðingunum.

Betri undirbúningur og meira samtal

Erlendir kollegar hvá þegar þeir heyra af því hve skammur tími líður oft frá undirbúningi lagabreytinga, þ. á m. skattahækkana, þar til þær taka hér gildi. Enn er mat á áhrifum lagabreytinga og við undirritun alþjóðlegra skuldbindinga ófullnægjandi. Í ýmsu tilliti virðist Stjórnarráðið vera að læra af hinum Norðurlöndunum og tekið að átta sig á að í landi þar sem þekking er dreifð getur gott samstarf við atvinnulífið verið þjóðinni til heilla.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.




Umræðan

Sjá meira


×