Lífið

Gítar­leikari The Cure er látinn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Frá hægri er Robert Smith söngvari og lagahöfundur, Simon Gallup bassaleikari og Perry Bamonte.
Frá hægri er Robert Smith söngvari og lagahöfundur, Simon Gallup bassaleikari og Perry Bamonte. Getty

Perry Bamonte, gítar- og hljómborðsleikari í hljómsveitinni The Cure, er látinn. Hann var 65 ára gamall.

Bamonte, sem er yfirleitt kallaður Teddy, lést eftir skammvinn veikindi yfir jólin. Hljómsveitin greinir frá sorgarfréttunum á heimasíðu sinni.

Hljómsveitin lýsir honum sem rólegum, áköfum, innsæjum, áreiðanlegum og stórkostlega skapandi og segir hann hafa spilað lykilhlutverk í sögu sveitarinnar.

„Hann passaði upp á hljómsveitina frá 1984 og út 1989, varð fullgildur meðlimur The Cure árið 1990, spilaði á gítar, basa og hljómborð á plötunum The Wish (1992), Wild Mood Swings (1996), Bloodflowers (2000), Acoustic Hits (2001), og The Cure (2004),“ segir í yfirlýsingu frá hljómsveitinni.

The Cure þarf varla að kynna fyrir flestum enda naut hún gríðarlegra vinsælda og hafði djúpstæð áhrif á pönk- og indítónlist sem enn gætir í dag. Hljómsveitin var stofnað af söngvaranum Robert Smith og trommaranum Lol Tolhurst árið 1976.

Bamonte gekk fyrst til liðs við sveitina sem rótari. Eftir að hljómborðsleikarinn Roger O’Donnell sagði skilið við The Cure varð hann fullgildur meðlimur og spilaði meira en fjögur hundruð tónleika næstu fjórtán árin. Hann leikur á frægum lögum sveitarinnar á borð við Friday I’m in Love, High og A Letter to Elise.

Hann lagði gítarinn á hillunni árið 2005 en hóf aftur að spila með henni árið 2022 og spilaði á öðrum 90 tónleikum með sveitinni.

„Hugur okkar og samúð er með fjölskyldu hans. Hans verður sárt saknað,“ segir hljómsveitin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.