Lífið

Chris Rea hefur ekið heim um jólin í síðasta skipti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Chris Rea á sviði í Berlín árið 2017.
Chris Rea á sviði í Berlín árið 2017. Getty/Frank Hoensch

Enski söngvarinn Chris Rea sem er líklega þekktastur fyrir jólasmell sinn Driving Home For Christmas er látinn 74 ára gamall. Talsmaður fjölskyldunnar segir Rea hafa kvatt umkringdur fjölskyldu sinni eftir stutt veikindi. 

Rea fæddist árið 1951 í Middlesbrough á Norður-Englandi og sló í gegn seint á áttunda áratugnum. Hann var þekktur fyrir hlýja, hása söngrödd, tilfinningaríkan texta og einkennandi gítarleik sem blandaði saman rokki, blús og poppi. 

Meðal þekktustu laga hans eru auk fyrrnefnds jólalags lögin On the Beach, Josephine og Road to Hell sem nutu gríðarlegra vinsælda víða um Evrópu og utan hennar.

Ferill Rea spannaði meira en fjóra áratugi og gaf hann út yfir tuttugu stúdíóplötur. Þrátt fyrir að hafa greinst með krabbamein í brisi upp úr aldamótum hélt hann áfram að semja og koma fram, oft með áherslu á blúsrætur sínar og persónulega frásögn.

Rea lætur eftir sig eiginkonu sem hann var í sambandi með frá sautján ára aldri og tvær uppkomnar dætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.