Enski boltinn

Óttast að besti leik­maður Liverpool verði frá

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dominik Szoboszlai hefur leikið frábærlega með Liverpool-liði sem hefur spilað misvel í haust.
Dominik Szoboszlai hefur leikið frábærlega með Liverpool-liði sem hefur spilað misvel í haust. Getty/Rene Nijhuis

Dominik Szoboszlai, sem hefur að öðrum ólöstuðum verið besti leikmaður Liverpool í vetur, er tæpur fyrir leik liðsins við Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Ungverjinn meiddist á ökkla undir lok 2-0 sigurs Liverpool á Brighton á laugardaginn var. Honum var skipt af velli og missti þar af fyrstu mínútum sínum með liðinu, eftir að hafa spilað allar mínútur í bæði deild og Meistaradeild hingað til á leiktíðinni.

Meiðsli Szoboszlai líta betur út en talið var í fyrstu en hætta er á því að hann missi af mikilvægum leik Liverpool við Tottenham í Lundúnum á sunnudaginn kemur. Hann er nú í kapphlaupi við tímann.

Fastlega er gert ráð fyrir því að hann nái leik liðsins við Wolves þann 27. desember á Anfield, fari svo að Szoboszlai spili ekki um helgina.

Joe Gomez meiddist í fyrri hálfleik í leiknum við Brighton og spilar ekki leik helgarinnar. Þá er Jeremie Frimpong enn frá. Mohamed Salah er þá farinn í Afríkukeppnina með egypska landsliðinu.

Conor Bradley tekur að líkindum stöðu Gomez í liðinu en hann tók út leikbann í sigri Liverpool á Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×