Fótbolti

Þjálfari meistaranna á hálum ís

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jacob Neestrup hefur stýrt FCK síðan 2022.
Jacob Neestrup hefur stýrt FCK síðan 2022. Craig Foy/SNS Group via Getty Images

Þrátt fyrir að hafa stýrt FC Kaupmannahöfn til endurkomusigurs í Meistaradeildinni í fyrradag og komið liðinu í góðan séns á sextán liða úrslitum er þjálfarinn Jacoc Neestrup í hættu á að missa starf sitt.

Gengið í dönsku deildinni hefur verið fyrir neðan væntingar forráðamanna félagsins en ríkjandi meistarar FCK sitja í fimmta sætinu eftir átján umferðir, tólf stigum frá toppliði AGF.

Bold greindi frá því í morgun að yfirmaður íþróttamála hjá FCK sé í leit að nýjum þjálfara fyrir Viktor Bjarka Daðason, Rúnar Alex Rúnarsson og hina leikmenn liðsins.

Staðan sé þó snúin fyrir FCK, sem framlengdi samning Neestrup í haust eftir að þýska liðið Wolfsburg sýndi honum áhuga í sumar. Þriggja ára framlenging var gerð og það yrði því rándýrt fyrir félagið að reka Neestrup.

Auk þess er talið að FCK vilji kveðja Neestrup með fegurri hætti en hann tók við stjórnartaumunum árið 2022. Félagið var þá í krísu og endaði í níunda sæti dönsku deildarinnar en hefur síðan unnið dönsku titlatvennuna í tvígang undir hans stjórn og náð góðum árangri í Meistaradeildinni.

Neestrup er ekki nema 37 ára gamall og er talinn eftirsóttur af öðrum liðum, þrátt fyrir slakt gengi FCK í dönsku deildinni á þessu tímabili.

VI í Hollandi greindi frá því í morgun að Neestrup sé einn af fjórum þjálfurum sem Ajax er með til skoðunar, eftir að John Heitinga var látinn fara í síðasta mánuði. Málin þar á bæ eru þó örlítið flókin því Ajax þarf fyrst að finna yfirmann íþróttamála til að ráða þjálfarann.

FCK spilar í átta liða úrslitum danska bikarsins á morgun gegn Esbjerg og fer síðan í jólafrí, næsti leikur liðsins verður þann 20. janúar á nýju ári og þar gæti nýr þjálfari stýrt liðinu í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×