Umræðan

Að­eins skapandi eyði­legging mun bæta sam­keppnis­hæfni Evrópu

Philippe Aghion skrifar

Umræður um dræmar vaxtarhorfur í Evrópu hafa staðið yfir að minnsta kosti frá aldamótum, en á síðustu árum þá hafa þær aldrei verið eins knýjandi. Innrás Rússa í Úkraínu leiddi ekki aðeins í ljós hversu hættulega háð álfan er innflutningi á orkugjöfum, heldur hafa stjórnarskipti í Bandaríkjunum neytt Evrópu til að endurhugsa hvernig hún muni tryggja velmegun, öryggi og fullveldi til framtíðar. Þróun gervigreindar, að flestum talin jafn stór tæknibylting og þegar internetið kom til sögunnar, endurspeglar algjört kraftleysi í Evrópu sem er langt á eftir Bandaríkjunum og Kína í þeim efnum –  og verður best lýst sem neyðarástandi.

Vandamálið er ekki bara vaxandi munur á þjóðartekjum á mann í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Evrópa hefur dregist aftur úr tækniþróun og státar af fáum alþjóðlega viðurkenndum leiðtogum í stafræna vistkerfinu, gervigreind, geimkapphlaupinu og öðrum geirum sem taldir eru til lykilþátta í samkeppnishæfni og öryggi á 21. öldinni.

Evrópa er verulega háð háþróaðri tækni sem framleidd er annars staðar og ófær um að skapa þann vöxt sem þarf til að fjármagna stefnumótandi markmið sín og standa undir framtíðarskuldbindingum. Hún er skólabókardæmi um það hvers vegna skapandi eyðilegging skiptir máli – að nýstárlegir áskorendur ryðji trénuðum fyrirtækjum aftur fyrir sig. Daufar vaxtahorfur er bara upphafið að vandamálinu.

Þrátt fyrir alla sína sögulega velgengni sem viðskipta- og eftirlitsveldi, verður Evrópa áfram í viðkvæmri stöðu nema leiðtogum álfunnar takist að hleypa af stokkunum nýsköpun á sama hraða og í sama umfangi og Bandaríkin, Kína og fleiri lönd. Þar sem gervigreind hefur möguleika á að skapa nýja þekkingu og hugmyndir, auk þess að stuðla að fjölbreyttu úrvali þjónustu og framleiðslu, gæti hún orðið tvöfalt öflugra tannhjól fyrir þá tegund skapandi eyðileggingar sem að endingu mun örva hagvöxt yfir lengri tíma.

Hún er skólabókardæmi um það hvers vegna skapandi eyðilegging skiptir máli – að nýstárlegir áskorendur ryðji trénuðum fyrirtækjum aftur fyrir sig. Daufar vaxtahorfur er bara upphafið að vandamálinu.

Nýsköpun á vaxtarjaðrinum verður mikilvægari eftir því sem hagkerfið kemst nær framlínu tækninnar. Jafnvel þótt aukin fjárfesting í rannsóknum og þróun teljist nauðsynleg til að örva byltingarkennda nýsköpun, þá dugar það ekki til.

Eins og áréttað er í skýrslu Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra evrusvæðisins og forsætisráðherra Ítalíu, fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um „Framtíð samkeppnishæfni Evrópu“, mun álfan áfram vera föst í hjólförum stigvaxandi nýsköpunar á miðstigi tækniþróunar, nema hún nái verulegum árangri á þremur meginsviðum:

Fjarlægi allar hindranir sem standa í vegi fyrir því að ná fullkomlega samþættum markaði fyrir vörur og þjónustu; skapi viðeigandi fjármálakerfi sem hvetur fyrirtæki og stofnanafjárfesta (lífeyrissjóði og verðbréfasjóði) til langtímaáhættu með fjárfestingu í vísisjóðum; og ýta verður undir nýsköpunar- og samkeppnisvæna atvinnustefnu á lykilsviðum eins og orkuskiptum, varnarmálum og geimferðum (þar á meðal gervigreind) og líftækni.

Evrópa hefur ekki aðeins forðast atvinnustefnu undir því yfirskini að innleiða fremur samkeppnisstefnu, heldur einnig lagt áherslu á samkeppni meðal starfandi fyrirtækja innan álfunnar og vanrækt mögulega aðkomu nýrra leikenda og samkeppni utan Evrópu, fyrst og fremst Bandaríkjanna og Kína. Markaðsaðgangur nýrra nýsköpunarfyrirtækja frá öðrum heimshornum er kjarni þeirrar skapandi eyðileggingar sem Evrópa þarfnast til að vaxa hraðar.

Efnahagskreddur hefur breytt Evrópu í eftirlitsrisa og fjárlagadverg.

Í byrjun 21. aldar sýndu Giuseppe Nicoletti og Stefano Scarpetta frá OECD fram á að tannhjól hagvaxtar í Bandaríkjunum stafaði að endurnýjun ungra hratt vaxandi fyrirtækja sem juku skilvirkni á meðan framleiðniaukningin í Evrópu átti sér stað innan ríkjandi fyrirtækja. Mörg núverandi vandamála Evrópu má rekja til þessa grundvallarmismunar.

Efnahagskreddur hefur breytt Evrópu í eftirlitsrisa og fjárlagadverg. Það ætti ekki að leggja að jöfnu fjárfestingar til að örva vöxt og ýmsar endurteknar opinberar útgjaldaáætlanir (eins og lífeyri og félagslegar bætur) við innleiðingu takmarkana Maastricht-sáttmálans á fjárlagahalla.

Liðka verður fyrir vel útfærðum atvinnustefnum, sérstaklega þeim sem ætlað er að vera samkeppnis- og nýsköpunarvænar. Þá ætti að leyfa aðildarríkjum að taka sameiginlega lán til að fjárfesta í nýrri tækni, svo framarlega sem þau sýni aga í stjórnun þess ramma sem útgjöld hins opinbera setja þeim.

Samhliða eflingu skapandi eyðileggingar og byltingarkenndrar nýsköpunar í Evrópu þarf að styðja við launafólk þegar það færir sig úr hnignandi atvinnugreinum yfir í þróaðri geira og draga úr tjóni þeirra til skamms tíma við þá umbreytingu. Í því skyni hef ég talað fyrir „sveigjanlegu öryggiskerfi“ að danskri fyrirmynd „Flexicurity“, þar sem ríkið greiðir laun starfsmanna sem hafa misst vinnuna sína á meðan þeir afla sér endurmenntunar og finna nýja vinnu. Tæknibylting sem knúin er áfram af gervigreind krefst einskis minna.

Evrópa hefur ekki aðeins forðast atvinnustefnu undir því yfirskini að innleiða fremur samkeppnisstefnu, heldur einnig lagt áherslu á samkeppni meðal starfandi fyrirtækja innan álfunnar.

Það var austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter sem bar kennsl á mikilvægi skapandi eyðileggingar fyrir efnahagsþróun. Evrópubúar nútímans verða að tileinka sér hugmyndafræði hans og gera hana aðgengilega og félagslega ásættanlegri ef þeir ætla sér að dafna á komandi árum og áratugum.


Lausleg þýðing á grein eftir Philippe Aghion sem birtist á vef Project Syndicate fimmtudaginn 11. desember. Höfundur er Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði árið 2025, prófessor við College de France og London School of Economics og félagi við Centre for Economic Performance.


Tengdar fréttir






×