Körfubolti

Böngsum mun rigna á Króknum á föstu­daginn

Sindri Sverrisson skrifar
Bangsakast þekkist víða erlendis á íþróttaviðburðum, þegar blásið er til söfnunar fyrir góðgerðasamtök fyrir börn.
Bangsakast þekkist víða erlendis á íþróttaviðburðum, þegar blásið er til söfnunar fyrir góðgerðasamtök fyrir börn. Getty/Bruce Bennett

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur ákveðið að leikur liðsins við ÍA í Bónus-deild karla í körfubolta á föstudaginn verði styrktarleikur fyrir Einstök börn. Allir sem mæta með bangsa eða kaupa bangsa á staðnum fá frítt á leikinn.

Greint er frá þessu á Facebook-síðu Tindastóls þar sem fram kemur að þegar Tindastóll skorar sína fyrstu þriggja stiga körfu á föstudaginn verði öllum böngsum kastað inn á völlinn, líkt og þekkist erlendis og í öðrum íþróttagreinum.

Leikmenn Tindastóls munu svo gefa Einstökum börnum á Norðurlandi bangsana í Síkinu eftir leik, og svo á Akureyri á laugardaginn, en nánari upplýsingar um viðburðinn verða veittar síðar í vikunni.

Einstök börn er, eins og fram kemur á heimasíðu félagsins, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni og fjölskyldna þeirra. Félagið var stofnað 13. mars 1997 af foreldrum nokkurra barna en nú eru hátt í 900 fjölskyldur í félaginu eða um rétt um 2400 foreldrar og stjúpforeldrar.

Leikur Tindastóls og ÍA hefst klukkan 19:15 á föstudaginn. Stólarnir steinlágu gegn taplausu toppliði Grindavíkur í síðustu umferð og eru því fjórum stigum frá toppnum en nýliðar ÍA eru í 8. sæti eftir átta umferðir, sex stigum á eftir Tindastóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×