Innlent

Lög­maðurinn á­fram í varð­haldi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lögreglan á Akureyri rannsakar málið en lögmaðurinn er í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði.
Lögreglan á Akureyri rannsakar málið en lögmaðurinn er í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði. Vísir/Vilhelm

Lögmaður sem sætt hefur gæsluvarðhaldi í tvær vikur vegna rannsóknar á skipulagðri brotastarfsemi hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. 

Skarphéðinn Aðalsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en DV greindi fyrst frá. Lögmaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram til laugardagsins 5. desember. Héraðsdómur Norðurlands eystra framlengdi vikulangt gæsluvarðhald yfir honum um aðra viku síðasta þriðjudag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn grunaður um að hafa aðstoðað fólk við að koma til landsins með ólögmætum hætti þar sem fólk hafi verið gripið við slíkt með nafn og símanúmer lögmannsins í handraðanum.

Sjá einnig: Lögmaður í haldi grunaður um skipulagða brotastarfsemi

Hann hefur auglýst gjaldfrjálsa lögmannsaðstoð á samfélagsmiðlum, meðal annars gagnvart fólki sem komið hefur hingað til lands og lent í vandræðum á landamærunum. 

Húsleit var framkvæmd á heimili lögmannsins og á vinnustað hans vegna rannsóknar málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×