Innlent

„Ís­lendingar eru allt of þungir“

Bjarki Sigurðsson og Smári Jökull Jónsson skrifa
Alma Möller er heilbrigðisráðherra.
Alma Möller er heilbrigðisráðherra. Vísir/Einar

Heilbrigðisráðherra segir Íslendinga allt of þunga. Hún vinnur nú að aðgerðaráætlun til að sporna við offitu. Ný könnun sýnir að sjötíu prósent fullorðinna á Íslandi séu annaðhvort í yfirþyngd eða með offitu.

Í nýrri skýrslu NORMO er dregin upp dökk mynd af venjum íbúa á Norðurlöndunum. Við borðum illa og of mikið, hreyfum okkur of lítið og ofþyngd er orðin algengari. Rúmur helmingur fullorðinna er of þungur og eitt af hverjum fimm börnum.

Þyngst Norðurlanda

Íslendingar koma verst út úr skýrslunni hvað varðar ofþyngd, en sjötíu prósent fullorðinna eru í yfirþyngd. Alma Möller heilbrigðisráðherra segir þetta slæmt mál. 

„Við höfum vitað þetta í fjölda ára. Að Íslendingar eru allt of þungir og við erum þyngri en margar nágrannaþjóðir,“ segir Alma. 

„Við gerðum landskönnun á mataræði fullorðinna og þar kemur fram að við borðum allt of lítið af trefjaríkum mat, grænmeti, ávöxtum og fiski og allt of mikið af unnum mat. Síðan bætast orkudrykkirnir og gosdrykkir við hjá börnunum. Þannig það eru margvísleg sóknartækifæri til að bæta mataræði landans.“

Ætla í aðgerðir

Hún ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu eftir áramót sem snýr að því að sporna við offitu.

„Við ætlum að fara í mjög margar aðgerðir sem snúa að offitu og ekki síst offitu barna. Þar munum við meðal annars hefja landskönnun á mataræði barna og unglinga,“ segir Alma. 

Eykur kvíða

Í skýrslunni kemur einnig fram að nikótínneysla sé að aukast.

„Við erum að sjá nýja notendur á nikótíni. Þessi mikla notkun skýrist af því að fleira fólk er að byrja að nota efnið. Við vitum æ meira um skaðsemi nikótíns. Það getur aukið kvíða hjá börnum og ungmennum og þetta er líka til skoðunar í ráðuneytinu. Það er á þingmálaskrá frumvarp sem snýr mikið að því að draga úr notkun barna og ungmenna á nikótíni. Það verður lagt fram í janúar eða febrúar,“ segir Alma. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×