Sport

Karlotta fyrst til að fá öll höfuðfötin og vill fleiri

Sindri Sverrisson skrifar
Karlotta Ósk Óskarsdóttir með fleiri ofurhlaupurum, með 500 km hattinn á höfðinu.
Karlotta Ósk Óskarsdóttir með fleiri ofurhlaupurum, með 500 km hattinn á höfðinu.

Félag 100 kílómetra hlaupara á Íslandi fundaði á Hótel Reykjavík Grand í gærkvöld og heiðraði þar meðal annars hlaupakonuna Karlottu Ósk Óskarsdóttur fyrir að klára 400 og yfir 500 kílómetra hlaup.

Meðlimir í 100 kílómetra klúbbnum eru núna yfir 400 talsins og var glatt á hjalla á fundinum í gær.

Veittar eru sérstakar derhúfur fyrir hlaupara fyrir að ná þeim áfanga að hlaupa 100 kílómetra, 100 mílur, 200 mílur og 400 kílómetra, og svo fæst sérstakur hattur fyrir að hafa klárað 500 kílómetra.

Karlotta tók við 400 km derhúfunni í gærkvöld, og svo einnig 500 km hattinum.

Karlotta er nú sú fyrsta til að hafa eignast allt höfuðfatasafnið en fyrr á þessu ári fór hún til að mynda lengstu vegalengd sem Íslendingur hefur farið í keppnishlaupi, þegar hún hljóp 534,8 kílómetra í sex daga Viadal Ultra hlaupinu í Svíþjóð. Þá sló hún einnig eigið Íslandsmet í 48 klukkutíma hlaupi í Danmörku og setti alls fjögur Íslandsmet á fjórum mánuðum.

Karlotta hefur nú lagt til við stjórn félags 100 kílómetra hlaupara að í framtíðinni verði einnig veittar viðurkenningar fyrir að klára 600, 700, 800, 900 og 1.000 kílómetra keppnishlaup.

Íslenskum hlaupurum sem hlaupið hafa 100 kílómetra er alltaf að fjölga.

Bleik derhúfa fylgir þeim áfanga að hafa hlaupið 400 kílómetra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×