Enski boltinn

Sjáðu æðis­kast Gueye sem fékk rautt fyrir að slá liðsfélaga

Sindri Sverrisson skrifar
Idrissa Gana Gueye missti algjörlega stjórn á skapi sínu og liðsfélagarnir reyndu að halda aftur af honum.
Idrissa Gana Gueye missti algjörlega stjórn á skapi sínu og liðsfélagarnir reyndu að halda aftur af honum. Getty/Carl Recine

Það er afar fátítt að leikmenn séu reknir af velli fyrir brot á liðsfélaga en það gerðist í leik Manchester United og Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Hinn 36 ára gamli Idrissa Gana Gueye, miðjumaður Everton, var rekinn af velli snemma leiks eftir að hafa veitt Michael Keane kinnhest, eins og sjá má hér að neðan.

Klippa: Rauða spjaldið á Gueye

Þeim Keane og Gueye sinnaðist, eftir sókn United. Gueye hellti sér yfir Keane sem stuggaði þá tvívegis við honum og Gueye brást þá hinn versti við. Hann veitti Keane kinnhest og tók æðiskast á meðan liðsfélagarnir reyndu að hemja hann, áður en hann rauk að lokum inn til búningsklefa.

„Hann slær Michael Keane og fyrir það fær hann beint rautt spjald. Alveg eftir reglunum,“ sagði Gummi Ben í beinni útsendingu á Sýn Sport.

„Idrissa Gana Gueye missir öll tök á sjálfum sér og er réttilega sendur í sturtu. Að láta reka sig út af fyrir slagsmál við liðsfélaga er hreinlega með ólíkindum. Idrissa Gana Gueye stendur vonandi núna fyrir framan spegilinn, horfir í augu sín og skammast sín,“ sagði Gummi.

Leikurinn hófst klukkan 20 og er í beinni útsendingu á Sýn Sport.


Tengdar fréttir

Man. Utd. - Ever­ton | Moyes mætir á gamla heima­völlinn

Manchester United var á góðri siglingu áður en að landsleikjahléinu kom og er ósigrað í fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni í röð. Everton kemur í heimsókn á Old Trafford í lokaleik 12. umferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×