Enski boltinn

Crystal Palace upp í Meistaradeildarsæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Munoz fagnar marki sínu fyrir Crystal Palace í dag.
Daniel Munoz fagnar marki sínu fyrir Crystal Palace í dag. Getty/ Naomi Baker

Crystal Palace er komið upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir góðan útisigur í dag og Brighton er í fimmta sætinu eftir endurkomusigur.

West Ham komst í 2-0 á móti Bournemouth en heimamenn náðu að jafna leikinn og tryggja sér 2-2 jafntefli.

Callum Wilson kom West Ham í 2-0 með tveimur mörkum í fyrri hálfleiknum. Marcus Tavernier minnkaði muninn úr víti á 69. mínútu og Enes Ünal skoraði jöfnunarmarkið á 81. mínútu.

Bournemouth hefur því leikið þrjá leiki í röð án þess að vinna og er dottið niður í sjöunda sæti eftir þessa draumabyrjun sína.

Daniel Munoz og Yéremi Pino tryggðu Crystal Palace 2-0 útisigur á Úlfunum. Mörkin komu með sex mínútna kafla í seinni hálfleik, á 63. og 69. mínútu.

Raul Jiménez tryggði Fulham 1-0 sigur á Sunderland en liðið hoppar upp í fjórtánda sætið. Sunderland tapaði í fyrsta sinn í langan tíma.

Brighton vann 2-1 endurkomusigur á heimavelli á móti Brentford. Igor Thiago kom Brentford yfir með marki úr vítaspyrnu á 29. mínútu. Danny Welbeck jafnaði metin á 71. mínútu og Jack Hinshelwood skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

Thiago fékk kjörið tækifæri til að jafna metin en lét Bart Verbruggen verja frá sér vítaspyrnu í uppbótatíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×