Sport

Heiðruðu látinn liðsfélaga og rústuðu síðan Raiders

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Dallas Cowboys hituðu upp í skyrtu með mynd af Marshawn Kneeland heitnum.
Leikmenn Dallas Cowboys hituðu upp í skyrtu með mynd af Marshawn Kneeland heitnum. Getty/Christian Petersen

Dallas Cowboys heiðraði minningu Marshawn Kneeland með ýmsum hætti fyrir 33-16 sigur liðsins á Las Vegas Raiders í NFL-deildinni í nótt.

Hinn 24 ára gamli leikmaður fannst látinn fyrr í þessum mánuði eftir að hafa flúið úr bíl sínum þegar lögreglan veitti honum eftirför. Lögreglan í Frisco í Texas sagði að varnarmaðurinn virtist hafa svipt sig lífi.

Eftir frí hjá Dallas-mönnum í tíundu viku NFL-deildarinnar var leikurinn gegn Raiders á mánudagskvöld fyrsti leikur Cowboys frá andláti Kneeland.

Bæði leikmenn Raiders og Cowboys klæddust bolum með andliti Kneeland á meðan þeir hituðu upp fyrir leikinn og á treyjum Raiders var símanúmer hjálparsíma vegna sjálfsvíga.

Forráðamenn Cowboys útbjuggu skáp í búningsklefanum með treyju Kneeland, númer 94, og hann var til sýnis.

Leikmaðurinn, sem var valinn í annarri umferð nýliðavalsins 2024, spilaði átján leiki fyrir Cowboys, þar af fjóra í byrjunarliði.

Leikstjórnandinn Dak Prescott, en bróðir hans, Jace, svipti sig lífi árið 2020, bar „One Love“-armband til heiðurs orðasambandi sem Kneeland notaði oft.

„Ég finn hvergi meiri frið en á þessum velli og ég veit að það sama gildir um marga stráka hérna,“ sagði Prescott.

„Það var blessun að vera hérna, þetta er staðurinn þar sem lækningin á sér stað fyrir mig. Við elskum Marshawn, við munum halda áfram að láta ljós hans skína og við erum blessuð að fá að halda ljósi hans á lofti,“ sagði Prescott.

Prescott kastaði fjórum snertimarkssendingum þegar Cowboys unnu sinn fjórða sigur á tímabilinu en þeir rústuðu Raiders-liðinu í þessum leik.

Hinn 32 ára gamli leikstjórnandi Kúrekanna fann CeeDee Lamb, Jake Ferguson og George Pickens með stuttu millibili og kom gestunum í 24-6 forystu áður en hann kastaði síðustu snertimarkssendingunni á Ryan Flournoy.

Cowboys eru á eftir Philadelphia Eagles í austurriðli Þjóðardeildarinnar (NFC Austur) á meðan Raiders eru neðstir í vesturriðli Ameríkudeildarinnar (AFC Vestur).

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×