Innlent

Sak­felldur fyrir morð og refsing þyngd veru­lega

Árni Sæberg skrifar
Frá Kjarnagötu á Akureyri.
Frá Kjarnagötu á Akureyri. Vísir

Þorsteinn Hermann Þorbjörnsson hefur verið sakfelldur í Landsrétti fyrir að svipta sambýliskonu sína lífi á heimili þeirra í Naustahverfi á Akureyri í apríl í fyrra og dæmdur í sextán ára fangelsi. Í Héraðsdómi Norðurlands eystra var hann ekki dæmdur fyrir manndráp heldur ofbeldi í nánu sambandi sem leiddi til dauða og aðeins dæmdur til tólf ára fangelsisvistar. Sá dómur var harðlega gagnrýndur.

Þetta var niðurstaða Landsréttar, sem kvað upp dóm síðdegis. Í dóminum segir að eftir uppkvaðningu dóms héraðsdóms hafi geðlæknar verið dómkvaddir til þess að meta sakhæfi Þorsteins Hermanns.

Niðurstaða þeirra hafi verið að Þorsteinn hafi á verknaðartíma ekki verið haldinn neinum þeim sjúkdómum sem taldir séu upp í almennum hegningarlögum, sem hefðu gert hann alls ófæran um að stjórna gerðum sínum.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra, þar sem málsatvikum er lýst, er ítarlega reifaður í fréttinni hér að neðan:

Gat ekki dulist að bani gæti hlotist af atlögunni

Í dómi Landsréttar segir að rétturinn hafi talið að þótt ekki lægi fyrir hvernig Þorsteinn Hermann hafi veitt konunni þann áverka sem dró hana til dauða, þá yrði ekki vefengt með skynsamlegum rökum að hann hefði veitt henni þá áverka sem leiddu til andláts hennar.

Rétturinn hafi talið að áverkar konunnar hefðu hlotist af krafti sem Þorsteinn Hermann hafi beitt gagnvart kviði, höfði, hálsi, bringu, brjóstkassa og útlimum með þeim afleiðingum sem lýst var í ákæru. Rétturinn hafi miðað við að atlaga hans hefði beinst að sérstaklega viðkvæmum svæðum líkamans og verið ofsafengin. Lagt hafi verið til grundvallar að Þorsteini Hermanni hafi ekki getað dulist að bani gæti hlotist af atlögunni. Hann hafi því verið sakfelldur fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi

Einnig sakfelldur fyrir fyrra ofbeldi

Þorsteinn Hermann var einnig ákærður fyrir brot í nánu sambandi þann í febrúar sama ár og hann banaði konunni. Hann var sagður hafa nefbrotið konuna, veitt henni áverka aftan á hálsi og hnakka, undir öðru auga og handlegg.

Hann var sakfelldur fyrir það brot bæði í héraði og Landsrétti.

Þorsteinn Hermann var í héraði dæmdur til að greiða tveimur sonum þeirra fjórar milljónir króna hvorum í miskabætur og öðrum þeirra 1,1 milljón króna í skaðabætur vegna útfararkostnaðar. Landsréttur lækkaði miskabæturnar í þrjár milljónir og staðfesti dóm héraðsdóms varðandi skaðabæturnar.

Dómurinn harðlega gagnrýndur

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra var harðlega gagnrýndur á sínum tíma fyrir það að Þorsteinn var ekki dæmdur fyrir manndráp, þar sem ekki taldist sannað að hann hefði haft ásetning til þess að myrða konu sína né hefði mátt vita að bani hlytist af árás hans.

Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, sagði í samtali við fréttastofu að dómurinn hefði valdið henni vonbrigðum. Hún velti því fyrir sér hvort dómurinn hafi verið mildari vegna þess að um heimilisofbeldi hafi verið að ræða.

„Maður hefur það á tilfinningunni að það vinni gegn dómnum að þetta sé heimilisofbeldi, að þetta langvarandi hræðilega ofbeldi sem hefur átt sér stað skuli enda svona. Ef þetta hefði verið utanaðkomandi aðili sem hefði komið inn á heimilið og framið slíkan verknað, því ef maður les dóminn þá er verknaðurinn greinilega til þess fallinn að valda miklum skaða, þá hugsar maður sig um hvort dómurinn hefði hljómað öðruvísi.“

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×