Innlent

Mikið undir á næsta sátta­fundi flug­um­ferðar­stjóra

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, segir félagsmenn orðna langþreytta eftir samningum. Það sé mikið undir á næsta fundi sáttasemjara, sem hann telur að verði í vikunni, því ef ekkert markvert verður lagt fram þá sé ekki hægt að útiloka aðgerðir. Aðgerðir séu ekki markmið í sjálfu sér - markmiðið sé að ná samningum.

Um síðustu áramót losnuðu samningarnir og hafa flugumferðarstjórar því verið samningslausir í um ellefu mánuði en kjaraviðræður hafa staðið yfir mun lengur. Í síðasta mánuði boðaði Félag flugumferðarstjóra fimm vinnustöðvanir en aðeins kom til einnar þeirra því skriður komst á kjaraviðræðurnar og var hætt við aðgerðirnar

„Þetta hefur bara gengið hægt. Við vorum í einni atlögu sem gekk ekki upp sem tók enda fyrir tæpum tveimur vikum. Í þeim fasa aflýstum við fjórum vinnustöðvunum, fórum í þá fyrstu sem við boðuðum af fimm.“

Hann segir markmiðið aldrei að fara í verkfallsaðgerðir og valda tjóni.

„Heldur að búa til einhverja pressu sem getur gagnast okkur í viðræðunum.“

Arnar segir að óformlegt samtal hafi átt sér stað í síðustu viku sem hafi skilað litlu sem engu. Hann gerir ráð fyrir að boðað verði til fundar á næstu dögum.

Er boðunin á grunni einhvers nýs? Hefur verið lagt fram tilboð eða eitthvað svoleiðis?

„Óformleg tilboð af hálfu beggja aðila voru lögð fram í síðustu viku sem náðu ekki saman. En það er ekkert nýtt eins og staðan er í dag.“

Hann segist ekki getað útilokað að félagið ráðist í aðgerðir reynist næsti sáttafundur árangurslaus.

„Við vorum með fjölmennan félagsfund á þriðjudaginn í síðustu viku og við fengum þar fram ákveðinn vilja félagsmanna, sem við höfum ekki tekið formlega ákvörðun um hvernig við stöndum að en það verður ákveðið vonandi í kjölfar þessa fundar sem verður boðaður núna.“

Þannig að það er mikið undir á þeim fundi?

„Já, það er bara mikið undir að fara að klára þessar viðræður, þetta er búið að vera í eitt og hálft ár, það er kominn tími til að klára þetta.“


Tengdar fréttir

Aflýsa yfir þúsund flugferðum

Meira en þúsund flugferðum til, frá og innan Bandaríkjanna var aflýst í dag. Ríkisstofnunum þar í landi hefur verið lokað frá upphafi októbermánaðar og er rask á flugi undanfarna daga afleiðing þess. 

Flugumferðarstjórar að bugast og dregið úr ferðum innanlands

Ráðherra samgöngumála í Bandaríkjunum, Sean Duffy, varar við því að frá og með morgundeginum gæti komið til þess að draga þurfi úr fjölda þeirra flugferða sem farnar eru frá fjörutíu stórum flugvöllum í Bandaríkjunum svo nemur tíu prósentum.

Fundi slitið án árangurs og nýr ekki boðaður

Fundi samninganefnda Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara var slitið á þriðja tímanum í gær án árangurs. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×