Erlent

Krefjast tvö þúsund ára fangelsis­dóms yfir borgar­stjóranum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá mótmælum í Istanbúl þann 26. október, mótmælendur halda á myndum af Ekrem İmamoğlu.
Frá mótmælum í Istanbúl þann 26. október, mótmælendur halda á myndum af Ekrem İmamoğlu. EPA/ERDEM SAHIN

Tyrkneskir saksóknarar krefjast tvö þúsund ára fangelsisdóms yfir Ekrem İmamoğlu borgarstjóra Istanbúl. Hann hefur setið í fangelsi síðan í mars vegna meintra spillingarmála en hann er einn helsti andstæðingur Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta.

Auk İmamoğlu eru 401 manns til viðbótar ákærðir vegna málsins en þeim er gefið að sök að hafa viðað að sér um 160 milljörðum tyrkneskum líra og þannig haft þær upphæðir af ríkinu. Samkvæmt saksóknaraembættinu áttu svikin sér stað yfir tíu ára tímabil. Hann hefur verið borgarstjóri Istanbúl síðan árið 2019. 

 Þegar İmamoğlu var handtekinn í mars brutust út ein stærstu mótmæli í sögu Tyrklands. Voru tæplega tvö þúsund manns handteknir í mótmælunum. İmamoğlu hafði áður verið úrskurðaður í sautján mánaða og fimmtán daga fangelsi fyrir að hafa móðgað embættismann og auk þess tveggja mánaða og fimmtán daga fangelsi fyrir hótanir.

Sjálfur hefur İmamoğlu og stuðningsmenn hans sagt að handtaka hans sé af pólitísku meiði. İmamoğlu hafi ætlað sér framboð í forsetakosningum í Tyrklandi 2028 og Tyrklandsforseti vilji með handtökunni koma í veg fyrir framboð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×