Sport

Vann sex hundruð milljónir en neitaði að vera á mynd með yfir­manni WTA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elena Rybakina kyssir Billie Jean King bikarinn eftir sigur sinn um helgina.
Elena Rybakina kyssir Billie Jean King bikarinn eftir sigur sinn um helgina. Getty/Clicks Images

Elena Rybakina fagnaði sigri á lokamóti WTA tennismótaraðarinnar um helgina þegar hún sigraði efstu konu heimslistans. Hún kom sér þó í fréttirnar fyrir það sem hún gerði ekki í verðlaunaafhendingunni.

Eftir að hafa unnið stærsta verðlaunafé í sögu kvennatennis neitaði Rybakina að stilla sér upp á mynd með Portiu Archer, framkvæmdastjóra WTA-mótaraðarinnar.

Rybakina vann Arynu Sabalenka, efstu komu heimslistans, í tveimur settum á laugardaginn var.

Þessi 26 ára gamli Kasaki fór upp í fimmta sæti heimslistans eftir sigurinn sem jafnframt tryggði henni 3,98 milljónir punda í verðlaunafé eða 665 milljónir íslenskra króna.

Rybakina stóð fjarri Sabalenka og Archer í hátíðarhöldunum eftir leikinn, þrátt fyrir að hafa verið beðin um að slást í hópinn.

Breska ríkisútvarpið veltir því fyrir sér af hverju Rybakina neitaði að sitja fyrir á mynd með Archer.

Rybakina neitaði að segja hver ástæðan væri, þó að atvikið eigi sér stað í lok tímabils þar sem WTA setti þjálfara hennar, Stefano Vukov, í bann.

Vukov var settur í tímabundið bann fyrr á þessu ári eftir að hafa verið fundinn sekur um að brjóta siðareglur WTA, í kjölfar óháðrar rannsóknar á hegðun hans gagnvart Rybakinu.

Á Opna ástralska mótinu í janúar gagnrýndi Rybakina WTA og sagðist ekki vera sammála mörgu sem stjórn sambandsins væri að gera varðandi samstarf hennar og Vukovs.

Rybakina hefur haldið því fram að þessi 38 ára gamli Króati hafi aldrei komið illa fram við hana.

Vukov neitaði líka sök og var viðstaddur þegar Rybakina sigraði á lokamóti tímabilsins, eftir að banni hans var aflétt í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×