Enski boltinn

Amorim fannst vanta hug­rekki til að klára leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Rubens Amorim eru ósigraðir í fimm deildarleikjum í röð.
Strákarnir hans Rubens Amorim eru ósigraðir í fimm deildarleikjum í röð. getty/Ash Donelon

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hefði viljað sjá sína menn sýna meira hugrekki til að sigra Tottenham í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Eftir dramatískar lokamínútur skildu Spurs og United jöfn, 2-2. Richarlison kom Tottenham yfir á fyrstu mínútu í uppbótartíma en Matthjis de Ligt jafnaði fyrir United þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

„Á meðan leiknum stóð fannst okkur stigin þrjú vera í boði fyrir okkur til að taka með heim. En síðan gerðist ýmislegt. Harry Maguire og Casemiro fóru af velli og við fengum á okkur tvö mörk. En við skoruðum aftur og þetta er stig,“ sagði Amorim í leikslok.

„Þegar þú getur ekki unnið, ekki tapa og okkur tókst það aftur. Við getum vaxið svo mikið sem lið því þetta var okkar dagur til að vinna leikinn.“

Amorim hefði viljað að United hefði gert meira til að vinna leikinn í stöðunni 0-1.

„Við þurfum að líta í eigin barm. Við pressuðum ekki af sömu ákefð. Okkur leið vel en við verðum að skilja að ef við hefðum sýnt meira hugrekki hefðum við gengið frá leiknum. En stundum gerist þetta, að fyrri hálfleikurinn er betri en sá seinni,“ sagði Amorim sem var þó ánægður að sínir menn gáfust ekki upp og jöfnuðu á elleftu stundu.

„Við trúum á getu okkar til að skora mörk á lokamínútunum.“

United er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með átján stig. Liðið hefur fengið ellefu stig í síðustu fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×