Íslenski boltinn

„Við viljum koma Haukum á fótboltakortið“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Óskar og Pablo ætla sér stórræði á Ásvöllum.
Óskar og Pablo ætla sér stórræði á Ásvöllum. vísir / lýður valberg

Óskar Örn Hauksson og Pablo Punyed hafa tekið við störfum hjá Haukum og vilja koma félaginu á kortið í íslenskum fótbolta.

Óskar og Pablo eiga báðir langa og mjög sigursæla ferla sem leikmenn, samanlagt hafa þeir sextán sinnum orðið Íslands- eða bikarmeistarar.

Nú tekur við nýr kafli, hjá Haukum, en þeir verða aðstoðarþjálfarar liðsins í 2. deildinni á næsta ári.

„Þetta er tækifæri fyrir okkur báða, að halda áfram að vaxa og við komum bara inn í þetta starf fagnandi“ segir Pablo, spenntur að hefja þjálfaraferilinn.

„Og svo það sé sagt um Hauka, það eru ekki mörg lið, á þessum tímapunkti, sem eru jafn spennandi“ segir Óskar Örn, sem hefur verið hluti af þjálfarateymi Víkings síðustu tvö ár.

Sigursælasta þjálfarateymi landsins

Ásamt þeim í þjálfarateyminu verður Daði Lárusson markmannsþjálfari. Daði er margfaldur Íslandsmeistari sem varði mark FH á gullaldartíma félagsins og hefur starfað sem þjálfari síðan skórnir fóru á hilluna.

Aðalþjálfari liðsins verður svo Guðjón Pétur Lýðsson, uppalinn Haukamaður sem á að baki rúmlega fimm hundruð meistaraflokksleiki fyrir fjölda félaga og var meðal annars lykilmaður í Valsliðinu sem vann titilinn tvö ár í röð.

Þegar litið er til leikja- og titlafjölda á leikmannaferlinum munu Haukar því eflaust búa yfir reynslumesta þjálfarateymi landsins og þeir eru spenntir að miðla sinni reynslu.

„Við viljum koma Haukum á fótboltakortið, það er stundum eins og fólk á Íslandi gleymi að Haukar séu til í fótbolta. Þeir hafa náð góðum árangri í handbolta og körfubolta, karla og kvenna, og okkur langar til að taka þátt í þannig árangri knattspyrnumegin“ segir Pablo.

Alls ekki hættur og ekki alveg hættur

Skórnir eru ekki farnir upp á hillu hjá Pablo, hann verður spilandi aðstoðarþjálfari, og væntanlega þá einn besti leikmaður 2. deildarinnar. Óskar Örn er hins vegar hættur að spila, en hefur þó ekki endanlega lagt skóna á hilluna.

„Það er allavega ekki kominn neinn Facebook-status um það. Ég er ekkert formlega hættur, en það er ekkert endilega planið að spila neitt. Ég er hérna fyrst og fremst sem aðstoðarþjálfari Gauja, en Pablo er hugsaður sem lykilmaður í liðinu. Við sjáum til“ segir Óskar.

Fjallað var um aðstoðarþjálfara Hauka í Sportpakkanum í gærkvöldi. Innslagið má sjá í spilaranum efst í fréttinni.

Viðtalið við þá í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Óskar Örn og Pablo Punyed teknir við störfum hjá Haukum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×