Íslenski boltinn

„Í ástar­sorg er gott að finna sér nýja ást sem fyrst“

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Smári Haraldsson er nýr þjálfari Stjörnunnar í Bestu deild kvenna.
Óskar Smári Haraldsson er nýr þjálfari Stjörnunnar í Bestu deild kvenna. Vísir/Lýður

Óskar Smári Haralds­son er nýr þjálfari Stjörnunnar í Bestu deild kvenna. Eftir árangurs­ríkan tíma hjá Fram en viðskilnað sem fór ekki eins og best verður á kosið. Óskar segist hann hafa fundið fyrir smá ástar­sorg en að í þannig stöðu sé gott að finna nýja ást sem fyrst.

Óskar Smári skrifar undir þriggja ára samning í Garða­bænum og tekur við liði Stjörnunnar sem endaði í fjórða sæti Bestu deildarinnar á nýaf­stöðnu tíma­bili. Stefnan er sett hærra og um leið greiða götu ungra og efni­legra leik­manna félagsins upp í meistara­flokk. Á næsta ári er ára­tugur liðinn frá síðasta stóra titli Stjörnunnar í kvenna­flokki. Óskar á sér draum um að vinna titla í Garða­bænum en réttu for­sendunum

„Óneitan­lega horfi ég á það að vilja af­reka eitt­hvað hérna. Ég vil skilja eitt­hvað eftir mig þegar að ég fer héðan eftir ein­hver ár. Eitt af því er að koma titli í safnið, það er klárt mál en þangað til er langur og strangur vegur fram undan, liðin í kringum okkur verða bara betri og við megum heldur ekki horfa of langt fram í tímann. Við þurfum bara að taka styttri skref og sjá hvað það gefur okkur. En ég væri að ljúga að þér ef ég myndi segja að ég væri ekki að horfa á að vinna titla hérna, því ég tel mig hafa engar af­sakanir til að gera ekki slíkt.“

Jóhannes Karl Sigursteinsson hefur stýrt liði Stjörnunnar undanfarin tímabil. Undir hans stjórn endaði Stjarnan í fjórða sæti Bestu deildarinnar á nýafstöðnu tímabili.vísir / pawel

Tekur við góðu búi

Það er margt sem heillar Óskar við verk­efnið hjá Stjörnunni þar sem að hann var á sínum tíma hluti af þjálfara­t­eymi Kristjáns Guð­munds­sonar.

„Fyrir það fyrsta er liðið náttúru­lega bara mjög gott. For­veri minn hér í starfi gerði bara mjög vel og á seinni hluta nýaf­staðins tíma­bils var lið Stjörnunnar bara mjög öflugt og gott. Leik­manna­hópurinn er góður, þéttur og margir góðir leik­menn. Svo er eitt stærsta og besta yngri flokka starf landsins hér í Garða­bænum. Margir leik­menn Stjörnunnar í yngri lands­liðunum og stórir og og góðir hópar í öðrum, þriðja og fjórða flokki sem eru að koma upp. Eitt af mínum hlut­verkum hér er að búa til greiða og góða leið fyrir yngri leik­menn að spila í meistara­flokki fyrir Stjörnuna. Þá er aðstaðan frábær, mikið af góðu fólki hér. Ég get talið upp enda­laust af hlutum.“

Frá leik Stjörnunnar og Breiðabliks á nýafstöðnu tímabili í Bestu deildinniVísir/Viktor Freyr

„Mun aldrei tala illa um Fram“

Undan­farin fjögur ár hafði Óskar stýrt liði Fram við góðan orðstír, komið liðinu upp um tvær deildir og í Bestu deildina þar sem það festi sig í sessi á síðasta tíma­bili. Hann hætti hins vegar eftir það tíma­bil og sagði metnað sinn og Fram ekki liggja á sama stað. Viðskilnaðurinn var ekki sá besti en mun þó ekki skil­greina sam­starfið í heild sinni í huga Óskars.

„Ég vil helst ekki skil­greina fjögur ár út frá þremur vikum,“ segir Óskar að­spurður um viðskilnaðinn við Fram. „Mér finnst það ósann­gjarnt. Félagið sem slíkt er frábært, það er mikið af frábæru fólki sem vinnur hörðum höndum að því að búa til það félag sem Fram er. Ég mun aldrei tala illa um Fram, það væri asna­legt af mér því Fram hefur gefið mér svo ótrú­lega mikið. Ég fékk fjögur ár þarna sem meistara­flokksþjálfari og fékk alltaf stuðning. 

Ég segi það, stend og fell með því, að ég hef alltaf fengið stuðning til að gera hlutina sem ég vildi gera, ásamt því fólki sem kemur að liðinu. Ég var með eitt öflugasta, ef ekki öflugasta kvennaráð, sem fyrir finnst á Ís­landi á þeim tíma sem ég starfaði þarna. Var mjög dekraður að svo mörgu leiti í Fram.

Viðskilnaðurinn var þó ekki eins og ég hefði óskað mér. Ég get verið heiðar­legur með það. Mér fannst bara mín sýn á það hvernig fram­haldið yrði ekki vera sú sama og sýn þeirra sem stýra skútunni og því fór sem fór. Svo eru líka aðrar ástæður sem spila inn í sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Persónu­legar ástæður sem ég hef fyrir sjálfan mig sem urðu líka til þess að þetta varð niður­staðan. Viðskilnaðurinn var pínu eins og smá ástar­sorg. Í ástar­sorg er gott að finna sér nýja ást sem fyrst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×