Sport

„Ís­land í hópi með Norður-Kóreu og Íran“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Erika Nótt vill að almennir hnefaleikar verði gerðir löglegir hér á landi.
Erika Nótt vill að almennir hnefaleikar verði gerðir löglegir hér á landi. vísir / lýður valberg

Erika Nótt Einarsdóttir telur hnefaleikabannið hér á landi vera Íslandi til skammar og vill lögleiða íþróttina að fullu.

Erika Nótt er langvinsælasta hnefaleikakona landsins og varð í fyrra fyrst Íslendinga til að vinna Norðurlandamót. Hún telur núverandi regluverk um hnefaleika, þar sem eingöngu áhugamanna- og ólympískir hnefaleikar eru leyfðir, vera löngu orðið úrelt.

„Það myndi gera helling fyrir Ísland að leyfa atvinnumannahnefaleika og þau leyfa þetta ekki afþví þau nenna bara ekki að breyta því eða eitthvað, ég veit það ekki. Það er án djóks engin ástæða fyrir því að þetta ætti ekki að vera leyft hérna.

Til að setja þetta í samhengi þá er Ísland í hópi með Norður-Kóreu og Íran yfir lönd sem leyfa þetta ekki“ segir Erika og ítrekar kaldhæðnislega að Ísland sé í góðum hópi.

„Já, verum bara alveg eins og Norður-Kóreu og Íran, við viljum fylgja þeirra reglum.“

Erika Nótt er sjálf á leið í atvinnumennsku snemma á næsta ári en mun ekki geta barist hér á landi. vísir / lýður valberg

„Grímurnar gera ekkert fyrir heilahristinga“

Hnefaleikar voru með öllu bannaðir á Íslandi árið 1956, sem var umdeild ákvörðun og er enn, en var fyrst og fremst tekin af öryggisástæðum vegna höfuðhögga.

Árið 2002 voru áhugamanna- og ólympískir hnefaleikar leyfðir, vegna þess að þar er notaður hlífðarbúnaður yfir höfuð, en Erika segir þau rök ekki halda vatni.

„Þetta er auðvitað hættuleg íþrótt og mig langar ekki að segja við ykkur að þetta sé bara allt í lagi. Þetta er alveg hættulegt en þetta er líka leyft alls staðar, og þess vegna erum við dómara og reglur sem passa upp á okkur.

Grímurnar gera ekkert fyrir heilahristinga, sem er það sem er hættulegt. Þær passa bara upp á skurði.“

Er sjálf á leið í atvinnumennsku

Erika er sjálf enn áhugamaður en stefnir á atvinnumennsku, eins og hún tilkynnti á IceBox viðburðinum í Kaplakrika síðasta sumar.

„Snemma árið 2026 fer ég í atvinnumennsku, það kemur bráðum“ segir Erika en viðtalið við hana má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Box

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×