Enski boltinn

Arteta óttast ekki að keppi­nautarnir steli undra­barninu frá honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Max Dowman gæti fengið tækifæri með Arsenal í enska deildabikarnum í kvöld.
Max Dowman gæti fengið tækifæri með Arsenal í enska deildabikarnum í kvöld. Getty/ Alex Pantling

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal er með liðið sitt í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar og lið uppfullt af stjörnuleikmönnum. Í leikmannahópnum er líka hinn fimmtán ára gamli Max Dowman.

Dowman er ekki nógu gamall til að skrifa undir atvinnumannasamning en Mikel Arteta hefur ekki áhyggjur af því að keppinautar hans gætu stolið undrabarninu frá Arsenal áður en hann kemst á aldur.

Strákurinn samþykkti í síðustu viku að gera námsstyrk við Arsenal sem tekur gildi þegar hann verður sextán ára þann 31. desember næstkomandi.

Verður að bíða eftir sautján ára afmælinu

Samkvæmt FIFA-reglum geta leikmenn ekki skrifað undir atvinnumannasamning fyrr en þeir verða sautján ára og þetta eina ár þarf að Arsenal að bíða í von og óvon og getur ekki fest hæfileikaríkan leikmann sem hefur vakið áhuga víðs vegar að úr Evrópu.

„Ég hugsa ekki um þetta því allt sem ég heyri frá leikmanninum og fjölskyldunni hefur verið mjög jákvætt,“ sagði Mikel Arteta.

„Við viljum öll að hann verði hér til langs tíma og ég held að það sé það sem hann vill líka. Eftir það er það meira fyrir [íþróttastjórann] Andreu [Berta] og félagið,“ sagði Arteta.

Mikill stuðningsmaður Arsenal

„Tilfinningin sem ég hef er sú að honum þyki virkilega gott að vera hér. Hann er mikill stuðningsmaður Arsenal og fjölskylda hans er mjög ánægð með hvernig hlutirnir eru að þróast í kringum hann líka. Vonandi verður hann með okkur í mörg ár,“ sagði Arteta.

Dowman verður væntanlega í leikmannahópnum fyrir fjórðu umferð enska deildabikarsins þar sem liðið mætir Brighton í kvöld. Hann var ekki með í 2-1 tapi Arsenal gegn Chelsea um síðustu helgi.

Það yrði þá fjórði leikur hans með aðalliðinu.

Þá myndum við aldrei spila honum

„Ef við skoðuðum vegabréf hans á hverjum degi myndum við aldrei spila honum, svo einfalt er það,“ sagði Arteta. 

„En þegar þú horfir á það sem hann gerir á æfingum verðurðu að spila hann. Ef ekki, þá ertu blindur, eða ég er blindur. Þetta snýst því um að finna jafnvægi, stjórna sérstaklega álaginu, hlutunum sem eru að breytast í lífi hans, og tryggja að hann geti tekist á við það. Hingað til hefur hann gert það,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×