Innlent

Stuttur fundur og hittast næst á mánu­dag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Fundi flugumferðastjóra og Samtaka atvinnulífsins var slitið á hádegi í dag og næsti fundur boðaður á mánudag. Engar frekari verkfallsaðgerðir eru áætlaðar að svo stöddu segir formaður Félags flugumferðastjóra.

Fundur deiluaðila hófst klukkan tíu í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni. Hann stóð þó aðeins yfir í tvær klukkustundir og var þá frestað til mánudagsmorguns.

Flugumferðastjórar frestuðu í gær áætluðum verkföllum sem áætluð voru annars vegar í dag og hins vegar á morgun. Engar frekari verkfallsaðgerðir eru á dagskrá að svo stöddu segir Arnar Hjálmsson formaður Félags flugumferðastjóra í samtali við fréttastofu.

„Það eru vonbrigði að við séum ekki búin að klára þetta fyrir löngu, ekkert meira núna en áður,“ sagði Arnar aðspurður hvort það væru vonbrigði að hafa ekki náð saman í ljósi þess að hætt hafi verið við aðgerðir.

Hann segir að næsti fundur hafi verið boðaður á mánudag og það sé gert þar sem grundvöllur sé fyrir áframhaldandi viðræðum. Deiluaðilar hafi verið að endurskipuleggja viðræður að einhverju leyti og ákveðið hafi verið að taka helgina til að melta stöðuna.

Alls voru fimm verkföll flugumferðastjóra áætluð í liðinni viku og á morgun en aðeins eitt þeirra varð að veruleika, þá var flugumferð um Keflavíkurflugvöll lokað í fimm klukkustundir og þurftu flugfélög að aflýsa og breyta flugtímum vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×