Sport

„Ég ætla kenna þreytu um“

Andri Már Eggertsson skrifar
Emil Barja var svekktur eftir tap kvöldsins
Emil Barja var svekktur eftir tap kvöldsins Vísir/Jón Gautur

Haukar töpuðu gegn Keflavík í Blue-höllinni í kvöld 94-84. Þetta var annað tap Hauka í röð og Emil Barja, þjálfari Hauka, var svekktur með byrjun liðsins.

„Þetta er búið að vera svona í hverjum einasta leik. Mér fannst þetta þó ekki það slæm byrjun að það hafi verið tuttugu stiga munur á liðunum. Þær hittu úr öllu og við klikkuðum úr öllu. Við vorum að gera einhverja hluti ágætlega en þetta var ekki nógu gott,“ sagði Emil Barja eftir leik og hélt áfram að tala um lélega byrjun Hauka.

„Við vorum að fá opin skot og sniðskot sem fóru ekki ofan í. Það kom þunglyndi í hópinn þegar skotin fóru ekki ofan í.“

Keflavík var tíu stigum yfir í hálfleik og Emil viðurkenndi að það hafi verið erfitt fyrir hans lið að elta forskot Keflavíkur í seinni hálfleik.

„Við vorum búnar á því. Það er erfitt að lenda tuttugu stigum undir í byrjun og vera elta allan leikinn. Við vorum þreyttar í seinni hálfleik. Við áttum fín áhlaup en slæm líka og ég ætla kenna þreytu um.“

Emil var ánægður með karakterinn í liðinu að hafa minnkað forskot Keflavíkur í fimm stig þegar tæplega mínúta var eftir.

„Þetta var þvílíkur karakter og við hefðum átt að minnka muninn niður í þrjú stig. Það var flott hjá þeim að gefast aldrei upp og það er okkar einkenni,“ sagði Emil Barja að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×