Erlent

Selja neyðargetnaðarvörn sem lausasölulyf í fyrsta skipti

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Konur í Japan þurfa ekki lengur lyfseðil.
Konur í Japan þurfa ekki lengur lyfseðil. Getty

Í fyrsta skipti verður hægt að kaupa neyðargetnaðarvörn sem lausasölulyf í Japan. Almenningur hefur verið samþykkur auðveldara aðgengi í fjölda ára en stjórnvöld töldu konur líklegar til að misnota lyfið væri auðvelt að nálgast það.

Um er að ræða lyf sem veldur breytingum á slímhúð legsins svo að frjóvguð eggfruma nær síður að hreiða þar um sig og kemur í veg fyrir um áttatíu prósenta þunguna. Í tilkynningu frá lyfjafyrirtækinu ASKA Pharmaceutical segir að greiðara aðgengi kvenna að lyfinu efli kynheilbrigði þeirra. 

Neyðargetnaðarvörn er nú þegar til sölu án lyfseðils í yfir níutíu löndum samkvæmt BBC en í Japan munu konur sem hyggjast taka lyfið gera það í viðurvist lyfjafræðings. Konur á öllum aldri mega taka lyfið og þurfa þær undir lögaldri ekki leyfi foreldra.

Japan hefur oftar en ekki verið lengi að samþykkja lyf sem snúa að kynheilbrigði kvenna og er það talið vera vegna íhaldssamra gilda. Áður var einungis hægt að fá lyfið með því að fara á heilsugæslu eða fá lyfseðil hjá lækni.

Það kom fyrst til tals árið 2017 hjá japönskum yfirvöldum að selja neyðargetnaðarvörn sem lausasölulyf og var yfirgnæfandi stuðningur meðal íbúa landsins fyrir því. Hins vegar töldu yfirvöld að með því að auðvelda aðgengið myndi það ýta undir óskynsamlega notkun þess. Baráttuhópar hafa talað fyrir auðveldara aðgengi þar sem lyfseðilsskyldan leiddi til þess að ungar konur og þolendur kynferðisofbeldis væru ólíklegri til þess að nýta sér lyfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×