Innlent

Sundabrú minnir á helsta kenni­leiti Norður-Noregs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Brúin til Tromsø var lengsta brú Norður-Evrópu þegar hún var opnuð árið 1960. Hún er 1.036 metra löng. Áætlað er að Sundabrú verði 1.172 metra löng.
Brúin til Tromsø var lengsta brú Norður-Evrópu þegar hún var opnuð árið 1960. Hún er 1.036 metra löng. Áætlað er að Sundabrú verði 1.172 metra löng. wikipedia/Lars Tiede

Sundabrú, sem Vegagerðin mælir með að verði reist yfir Kleppsvík, minnir um margt á Tromsøbrú, helsta kennileiti Tromsø, stærstu borgar Norður-Noregs. Brýrnar yrðu álíka langar og álíka háar, báðar steinsteyptar á súlum og ekki ósvipaðar útlits.

Tromsøbrú var byggð á árunum 1958 til 1960 og tengdi eyna Tromsø við fastaland Noregs. Hún var opnuð þann 3. júlí 1960 af Einari Gerhardsen, forsætisráðherra Noregs, og var hún þá lengsta brú í Norður-Evrópu, 1.036 metra löng og 36 metra há. Brúartollur var innheimtur fyrstu tíu árin.

Á Tromsøbrú eru tvær akreinar fyrir bíla, ein í hvora átt. Öðrumegin á brúnni er sérstök gönguleið fyrir gangandi vegfarendur en hinumegin sérstök hjólaleið fyrir reiðhjólafólk.

Framundan er að breikka hjólastíginn á Tromsøbrú um hálfan metra.Tenk Tromsø

Opnun brúarinnar varð til þess að íbúum Tromsø fjölgaði samfara vaxandi bílaeign. Umferðarteppur við brúna urðu tíðari með árunum og að því kom að hún annaði ekki umferðinni. Því var ákveðið að grafa einnig jarðgöng undir Tromsøsund og voru þau opnuð árið 1994.

Tromsøysundsgöngin er 3,5 kílómetra löng. Umferð hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda er ekki leyfð um göngin.Wikimedia

Tvenn samhliða göng voru grafin með alls fjórum akreinum, tveimur í hvora átt. Þar sem göngin ná niður á 102 metra dýpi þurfti að hafa þau meira en þrefalt lengri en brúna til að jafna hallann, eða 3.500 metra löng. Umferð gangandi vegfarenda og hjólreiðafólks er hins vegar bönnuð um göngin vegna slysahættu, eins og tilfellið yrði með Sundagöng.

Brúarhandriðið var hækkað eftir röð sjálfsvíga.Wiki/Elin Olsen

Tromsøbrú hefur frá fyrstu tíð verið vinsæl gönguleið, þrátt fyrir að þar gusti meira en inni í bænum. Um fimmtán mínútur tekur að ganga yfir brúna á venjulegum gönguhraða og af henni fæst mikið útsýni. Og hjólaleiðin er orðið það mikið notuð að búið er að ákveða að breikka reiðhjólastíginn um hálfan metra með því að bæta utan á brúna án þess að þrengja bílaakreinar.

Nokkur sjálfsvíg á innan við einu ári vörpuðu skugga á brúna. Þau urðu til þess að árið 2005 var brúarhandriðið hækkað til að hindra að fólk gæti stokkið fram af. Sú ráðstöfun reyndist vel og í skýrslu þrettán árum síðar kom fram að ekkert sjálfsvíg hafði orðið á brúnni eftir breytinguna.

Árið 1974 vígði Haraldur krónprins, núverandi konungur, aðra stórbrú í Tromsø, Sandnessundsbrúna, sem tengdi Tromsø við Kvaløya. Sú brú er í sama stíl en ennþá stærri, 1.220 metra löng. Brúartollur var innheimtur á henni í átta ár.

Brúin yfir Sandnessund tengir Tromsø og Kvaløya. Flugvöllurinn á Tromsø er við brúarsporðinn..wikimedia/Guttorm Raknes

Tromsø liggur mun norðar en Ísland og íbúarnir upplifa heimskautaveður með vetrarstormum, snjókomu og ísingu. Þótt oft blási hressilega er Tromsøbrú sjaldan lokað vegna veðurs og þá aðeins um skamma stund í hvert sinn. Þannig var brúin lokuð vegna veðurs í samtals fimm og hálfa klukkustund árið 2022 og í samtals fjórar klukkustundir árið 2023 og dreifðust þessar lokanir á nokkra daga.

Árið 1960, þegar fyrri brúin var opnuð, bjuggu 12 þúsund manns í Tromsø. Áratug síðar, árið 1970, var íbúafjöldinn kominn upp í 38 þúsund manns. Núna búa um 80 þúsund manns í Tromsø, en hluti af fólksfjölguninni er vegna sameiningar við nærliggjandi sveitarfélög.

Árið 2002 var Tromsøbrú sett undir vernd sem mikilvægar vegminjar. Hún var svo friðlýst árið 2008 af norska menningarmálaráðuneytinu.

Stöð 2 heimsótti Tromsø árið 2011 og gerði þá þessa frétt:


Tengdar fréttir

Við gætum farið að aka Sundabraut eftir sjö ár

Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist eftir tvö ár, gangi áform stjórnvalda eftir. Þeir sem vilja lýsa skoðun sinni hafa núna sex vikna frest, til 30. nóvember, til að koma áliti sínu á framfæri.

Tromsö eins og að flytja heim á Ísafjörð

Ráðning Íslendings sem framkvæmdastjóra skrifstofu Norðurskautsráðsins er viðurkenning fyrir framlag Íslands til Norðurslóða, segir Magnús Jóhannesson, sem tók við starfinu í vikunni. Íslendingar buðu fram Reykjavík undir höfuðstöðvarnar en Tromsö hafði betur. Þjóðfánar þeirra átta ríkja sem mynda Norðurskautsráðsráðið voru leiddir fram við athöfn sem markaði stofnun fastaskrifstofu ráðsins.

Tromsö eflist sem heimsborg norðursins

Þrátt fyrir að bærinn Tromsö í Norður-Noregi sé talsvert norðar en Kolbeinsey fjölgar fólki þar tvöfalt hraðar en í Reykjavík og gæti svo farið að þessi höfuðstaður Norður-Noregs verði stærri en höfuðborg Íslands á næstu áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×