Íslenski boltinn

Fimm til­nefndar sem besti leik­maður ársins í Bestu deild kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það eru sextíu prósent líkur á því að Blikar eigi besta leikmann Bestu deildarinnar í ár en Breiðablik á þrjá af fimm tilnefndum leikmönnum.
Það eru sextíu prósent líkur á því að Blikar eigi besta leikmann Bestu deildarinnar í ár en Breiðablik á þrjá af fimm tilnefndum leikmönnum. Vísir/Ernir

Í dag fer Íslandsmeistaraskjöldurinn kvenna á loft en hann er ekki einu verðlaunin sem verða afhent í tengslum við Bestu deild kvenna í fótbolta.

Lokaumferð Bestu deildar kvenna í fótbolta fer fram í dag og Blikakonur munu taka á móti Íslandsmeistaraskildinum eftir leik sinn á móti FH.

Íslenskur Toppfótbolti hefur nú gefið út hvaða leikmenn voru efstir í kjörinu á Besta og efnilegasta leikmanni deildarinnar.

Íslandsmeistarar Breiðabliks eiga þrjá af þessum fimm tilnefndu leikmönnum.

Markadrottningin Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Birta Georgsdóttir og stoðsendingadrottningin Agla María Albertsdóttir koma allar til greina sem leikmaður ársins ásamt FH-ingum Örnu Eiríksdóttur og Þróttaranum Katie Cousins. Arna yfirgaf FH undir lok tímabilsins og spilar nú með Valerenga í Noregi.

Þrír leikmenn koma til greina sem efnilegasti leikmaður deildarinnar eða þær Bríet Fjóla Bjarnadóttir úr Þór/KA, Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir úr Breiðabliki og Thelma Karen Pálmadóttir úr FH. Hrafnhildur Ása vann þessi verðlaun í fyrra og gæti því unnið þau annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×