Enski boltinn

Skjátlaðist um Palmer sem verður lengi frá keppni

Sindri Sverrisson skrifar
Enzo Maresca þarf að stóla á aðra en Cole Palmer næstu vikurnar.
Enzo Maresca þarf að stóla á aðra en Cole Palmer næstu vikurnar. EPA/PETER POWELL

Chelsea verður að spjara sig án Cole Palmer í að minnsta kosti sex vikur til viðbótar, vegna nárameiðsla sem hann glímir við.

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag þegar hann fór yfir meiðslastöðuna hjá Chelsea.

Blaðakona spurði Maresca sérstaklega út í stöðuna á Palmer, í ljósi þess að Maresca hafði sagst, fyrir landsleikjahléið, vonast til þess að Palmer gæti spilað núna um helgina. Chelsea sækir Nottingham Forest heim í hádeginu á morgun.

„Ég hafði rangt fyrir mér. Því miður þarf hann að vera frá keppni í sennilega sex vikur í viðbót,“ sagði Maresca.

„Við reynum bara að vernda Cole eins og við getum og mikilvægast er að hann verði fullkomlega klár í slaginn þegar hann mætir aftur,“ sagði Maresca.

Palmer missir af fjölda leikja og verður líklega ekki með fyrr en síðustu helgina í nóvember, þegar Chelsea tekur á móti Arsenal í stórleik. Áður spilar liðið meðal annars við Ajax og Barcelona í Meistaradeild Evrópu og grannaslag við Tottenham 1. nóvember.

Levi Colwill og Liam Delap eru eftir sem áður frá keppni vegna meiðsla og Benoit Badiashile verður frá keppni fram í desember vegna vöðvameiðsla, sagði Maresca. Vafi er svo um stöðuna á fleirum:

„Moi [Caicedo], Enzo [Fernandez] og [Joao] Pedro tóku ekki þátt í æfingu í gær. Við sjáum til hvort þeir verði með í dag. Reece [James] er í lagi, hann er alveg klár í slaginn,“ sagði Maresca.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×