Fótbolti

Tíma­bilið búið hjá Sæ­vari Atla: „Ótrúlega svekkjandi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sævar Atli hefur farið mikinn að undanförnu og eru tíðindin honum því sjokk.
Sævar Atli hefur farið mikinn að undanförnu og eru tíðindin honum því sjokk. Mynd/Brann

Sævar Atli Magnússon hefur lokið leik þetta tímabilið vegna meiðsla sem hann varð fyrir í landsleik Íslands við Frakkland á mánudagskvöldið var. Félag hans Brann í Noregi greinir frá tíðindunum.

Sævar Atli fór meiddur af velli rétt fyrir hálfleik og fann til eymsla í hné. Ljóst er að meiðslin munu halda honum frá vellinum út árið en tímabilið í norsku úrvalsdeildinni klárast í lok nóvember.

Þá er ljóst að hann mun ekki spila landsleiki Íslands í undankeppni HM 2026 í nóvember, við Aserbaídsjan og Úkraínu.

„Þetta er ótrúlega svekkjandi og alvarleiki meiðslanna kom mér í opna skjöldu,“ er haft eftir Sævari á heimasíðu Brann. „En við erum með öflugan hóp og ég mun styðja strákana úr stúkunni það sem eftir lifir leiktíðar,“ bætir hann við.

Sævar Atli hefur leikið frábærlega með Brann á leiktíðinni og skorað tíu mörk í 16 leikjum eftir skipti frá Lyngby í Danmörku. Hann hefur skorað einu tvö mörk Brann í Evrópudeildinni, í 2-1 tapi fyrir Lille og sigurmarkið í 1-0 sigri á Utrecht.

Árangurinn skilaði honum fyrsta byrjunarliðssætinu í íslenska landsliðinu í rúm tvö ár en hann byrjaði báða leiki í nýafstöðnum landsleikjaglugga, gegn Úkraínu og Frakklandi.

Sævar Atli er uppalinn hjá Leikni í Reykjavík og virðist Breiðholtstengingin sterk milli hans og Freys Alexanderssonar, þjálfara Brann, sem var þjálfari hans hjá bæði Leikni og Lyngby áður en hann fékk hann til Brann.

Ekki kemur fram hversu lengi Sævar verður nákvæmlega frá keppni og áhugavert að sjá hvort hann geti spilað með Brann í Evrópudeildinni á nýju ári, þó hann hafi spilað síðasta leik sinn í norsku úrvalsdeildinni um hríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×