Handbolti

Donni öflugur í sigri á Spáni

Sindri Sverrisson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson skoraði fjögur mörk í kvöld.
Kristján Örn Kristjánsson skoraði fjögur mörk í kvöld. Getty/Marco Steinbrenner

Landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson, eða Donni, skoraði fjögur mörk í kvöld þegar Skanderborg AGF vann sigur gegn Granollers á Spáni, 31-26, í fyrsta leik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta.

Aðeins einn leikmaður skoraði meira en Donni fyrir SAH í kvöld en það var Anderas Rasmussen sem skoraði fimm mörk.

Heimamenn byrjuðu ívið betur en svo tóku gestirnir fram úr og voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 18-13. Þeir komust svo mest í 21-13 og var sigurinn aldrei í neinni hættu í seinni hálfleiknum.

Í hinum leiknum í C-riðli vann Grosist Slovan sex marka sigur á Minaur Baia Mare í Slóveníu, 35-29.

Einar Bragi frábær í sigri í Frakklandi

Einar Bragi Aðalsteinsson var næstmarkahæstur hjá Kristianstad, með sex mörk, þegar liðið vann flottan útisigur gegn Fenix Toulouse í Frakklandi, 30-28. 

Kristianstad var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15-11. Einar Bragi skoraði mörkin sex úr átta skotum og aðeins Axel Månsson gerði fleiri, eða níu, en úr fimmtán skotum.

Í Evrópudeildinni í kvöld mættust einnig Fram og Porto, auk þess sem fleiri Íslendingalið voru á ferðinni eins og lesa má um í greininni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×