Handbolti

Ís­lendingar í Evrópu­deild: Óðinn raðaði inn mörkum í Sviss

Sindri Sverrisson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur síðustu ár verið algjör lykilmaður hjá Kadetten Schaffhausen.
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur síðustu ár verið algjör lykilmaður hjá Kadetten Schaffhausen. EPA/Johan Nilsson

Óðinn Þór Ríkharðsson fór á kostum fyrir Kadetten Schaffhausen þegar liðið vann 30-22 sigur á spænska liðinu Ademar Leon, í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta. Fleiri Íslendingar voru á ferðinni í Evrópudeildinni í dag.

Óðinn varð langmarkahæstur hjá Kadetten í dag með níu mörk úr tíu skotum, og keppnin byrjar því vel hjá honum og svissnesku meisturunum sem eru einnig í riðli með Nexe frá Króatíu og Partizan frá Serbíu.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú marka Melsungen sem vann tveggja marka sigur gegn Benfica, 28-26. Arnar nýtti öll skotin sín og skoraði þrjú af fyrstu níu mörkum Melsungen sem komst þá í 9-5.

Stiven Valencia skoraði einnig úr öllum þremur skotum sínum fyrir Benfica sem tókst hins vegar aldrei að jafna metin eftir þetta. Reynir Þór Stefánsson var ekki með Melsungen.

Arnór Viðarsson skoraði þrjú marka sænska liðsins Karlskrona sem tapaði gegn FTC í Ungverjalandi, 31-29. Ólafur Guðmundsson var hins vegar ekki með.

Birgir Steinn Jónsson og félagar í sænska liðinu Sävehof gerðu afar svekkjandi 30-30 jafntefli við Tatran Presov í Slóvakíu. Heimamenn voru reyndar yfir stærstan hluta leiksins en Sävehof komst í 30-28 þegar skammt var eftir. Jöfnunarmarkið kom þegar aðeins um fimm sekúndur voru til leiksloka.

Danska liðið Fredericia, sem rak Guðmund Guðmundsson á dögunum, tapaði á heimavelli gegn Hannover Burgdorf, 29-31.

Í kvöld mætast Fram og Porto í keppninni og er sá leikur í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×