Handbolti

Guð­jón og Arnór stýrðu til sigurs í Þýska­landi

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er í toppbaráttunni í Þýskalandi með lið Gummersbach.
Guðjón Valur Sigurðsson er í toppbaráttunni í Þýskalandi með lið Gummersbach. Getty/Tom Weller

Íslensku þjálfararnir Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Þór Gunnarsson stýrðu liðum sínum til sigurs í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld, þegar fjöldi Íslendinga var á ferðinni.

Guðjón Valur er með Gummersbach í 3. sæti deildarinnar, með sex sigra í fyrstu átta leikjunum, eftir að liðið vann öruggan sigur gegn Erlangen á heimavelli í kvöld, 33-22.

Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú marka Gummersbach og Teitur Örn Einarsson eitt. Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Erlangen en Andri Már Rúnarsson ekkert.

Arnór Þór sá sína menn í Bergischer vinna sjö marka sigur á Wetzlar, 35-28, eftir að staðan hafði verið jöfn í hálfleik, 16-16. Þetta var fyrsti sigur Bergischer á tímabilinu en liðið hafði tapað fyrstu sex leikjunum og er enn í fallsæti, en Wetzlar er með fimm stig.

Rhein-Neckar Löwen og Göppingen gerðu 30-30 jafntefli í Íslendingaslag, þar sem Ýmir Örn Gíslason varði lokaskot leiksins í vörn Göppingen. Staðan hélst jöfn síðustu tvær og hálfa mínútu leiksins, eftir að liðin höfðu skipst á að hafa naumt forskot.

Haukur Þrastarson skoraði fimm mörk úr ellefu skotum og átti fjórar stoðsendingar. Varnarmaðurinn Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt marka Göppingen.

Löwen er með tíu stig eftir átta leiki en Göppingen sæti neðar í 8. sæti með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×