Enski boltinn

Matti Villa efstur í Víkings­deildinni í Fanta­sy en þjálfarinn á botninum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson er besti Fantasy-spilarinn í liði Íslandsmeistara Víkings.
Matthías Vilhjálmsson er besti Fantasy-spilarinn í liði Íslandsmeistara Víkings. vísir/ernir

Strákarnir í Fantasýn halda áfram að fara yfir stöðu mála í ýmsum vel völdum einkadeildum í Fantasy. Í síðasta þætti kíktu þeir á Fantasy-deild nýkrýndra Íslandsmeistara Víkings. Aldursforseti liðsins er á toppi deildarinnar en illa gengur hjá þjálfaranum.

Víkingur varð Íslandsmeistari í þriðja sinn á síðustu fimm árum og í áttunda sinn alls eftir 2-0 sigur á FH á sunnnudaginn.

Núverandi og fyrrverandi leikmenn Víkings eru saman í Fantasy-deild sem Fantasýnar-strákarnir fóru yfir í síðasta þætti.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan eða með því að smella hér.

Matthías Vilhjálmsson, elsti leikmaður Víkings, er efstur í deild þeirra rauðu og svörtu og í 93. sæti í Sýnar-deildinni þar sem allir íslenskir Fantasy-spilarar eru. Matthías var með Bryan Mbeumo, leikmann Manchester United, sem fyrirliða í síðustu umferð og græddi vel á því.

Í 2. sæti í Víkingsdeildinni er Danijel Dejan Djuric sem leikur núna með Istra í Króatíu. Daði Berg Jónsson er svo í 3. sætinu.

Davíð einu sinni með þeim bestu

Leikmennirnir sem skoruðu mörk Víkings í leiknum gegn FH, Helgi Guðjónsson og Valdimar Þór Ingimundarson, eru svo í 4. og 5. sæti deildarinnar. Aron Elís Þrándarson er sjötti og Davíð Örn Atlason sjöundi. Hann er afar flinkur Fantasy-spilari.

„Hann á einn besta árangurinn í sögu því hann var í 21. sæti í heiminum árið 2021,“ sagði Albert Þór Guðmundsson um Davíð.

Öllu verr gengur hjá þjálfara Íslandsmeistaranna, Sölva Geir Ottesen, í Fantasy en hann er neðstur í Víkingsdeildinni.

„Er ekki ágætt að hann sé að einbeita sér að þjálfa í raunheimum,“ sagði Sindri Kamban en Albert benti á að Sölvi hefði ekki stofnað Fantasy-lið fyrr en í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. 

„Það er ekki skrítið að hann sé neðstur. Hann mun sækja á þegar fram líða stundir,“ sagði Albert.

Hægt er að hlusta á alla þætti Fantasýn á tal.is með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×