Innlent

„Sjálfsíkveikja“ olli elds­voða í þvotta­húsi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Slökkviliðið var um tvær mínútur að slökkva eldinn.
Slökkviliðið var um tvær mínútur að slökkva eldinn. Vísir/Vilhelm

Betur fór en á horfðist þegar kviknaði í Þvottahúsinu Fjöður í gærkvöldi. Einn eiganda þvottahússins segir að um svokallaðað sjálfsíkveikju hafi verið að ræða. Dagurinn í dag fer í að þrífa allan þvott upp á nýtt.

„Þetta er kallað sjálfsíkveikja. Það voru tuskur teknar úr þurrkara kannski ekki alveg nógu kaldar og þá myndast á löngum tíma mikill hiti í dallinum og svo kviknar í þeim af sjálfu sér. Þetta er þekkt,“ segir Baldur Georg Baldursson, einn eiganda Þvottahússins Fjöður, sem var staddur í þvottahúsinu þegar fréttastofa náði tali af honum.

„Þetta fór mikið betur en á horfðist. Það kviknaði í einum dalli hjá okkur af tuskum en það var ekkert tjón af tækjum eða slíku. Við þurfum bara að þrífa og þvo aftur.“

Til allrar lukku fór vatnsúðakerfi þvottahússins í gang um leið og eldurinn kviknaði. Steinþór Darri Þorsteinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði að kollegar hans hafi aðeins verið um tvær mínútur að slökkva eldinn.

„Það var enginn í húsinu og engin slys. Í sjálfu sér er tjónið afar minniháttar,“ segir Baldur Georg.

„Við erum á fullu að þrífa allan þvott upp á nýtt sem varð fyrir reyk. Það er bara verið að þrífa allt og starfsemi heldur áfram, buisness as usual.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×