Innlent

Styttist í lok rann­sóknar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tilkynnt var um andlát fólksins á Edition-hótelinu um miðjan júní.
Tilkynnt var um andlát fólksins á Edition-hótelinu um miðjan júní. Vísir/Anton Brink

Það styttist í að lögregla ljúki rannsókn á máli þar sem kona er grunuð um að hafa banað eiginmanni sínum og dóttur á Edition. Konan gengur laus en er í farbanni til 27. nóvember.

Konan var handtekin laugardaginn 14. júní eftir að starfsmaður Edition-hótelsins í Reykjavík kom að henni særðri á hótelherbergi fjölskyldunnar. Eiginmaður hennar og dóttir voru úrskurðuð látin á vettvangi. Konan er frönsk en búsett á Írlandi, líkt og hin látnu.

E. Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að rannsókn málsins fari að klárast. Ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, málið sé viðamikið.

Fram hefur komið að lögreglan á Írlandi hafi ráðist í húsleit þar í landi að beiðni kollega sinna á Íslandi og munir sem fundust við leitina séu nýlega komnir til landsins. Lögreglan hér á landi hefur tekið við gögnum erlendis frá.

Konan var úrskurðuð í gæsluvarðhald þann 15. júní og sat í því í rúmar fjórtán vikur, til 24. september. Hámarkstími gæsluvarðhalds er tólf vikur, nema mál hafi verið höfðað gegn sakborningi eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess. Konan var í farbanni til 27. nóvember eins og áður hefur komið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×