Innlent

Graf­alvar­leg staða í Dan­mörku, trampólínlægð og hundaflaut

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Erla Björg Gunnarsdóttir les kvöldfréttirnar á Sýn í kvöld.
Erla Björg Gunnarsdóttir les kvöldfréttirnar á Sýn í kvöld. vísir

Fleiri flugvöllum í Danmörku var lokað í gærkvöldi og í nótt vegna drónaumferðar. Dönsk stjórnvöld segja ástandið grafalvarlegt og lýsa atvikunum sem skipulagðri fjölþáttaárás. Í kvöldfréttum verðum við í beinni frá Kaupmannahöfn þar sem ráðamenn funda nú um málið.

Kallað er eftir breytingum á lögum um fjárhættuspil. Við ræðum við þingmann sem óttast að sífellt fleiri muni glíma við spilafíkn í óbreyttu ástandi og segir unga karlmenn í mestri hættu.

Fyrsta haustlægðin nálgast landið og búist er við hvassviðri og mikilli úrkomu. Við verðum í beinni með veðurfræðingi sem ráðleggur fólki að ganga frá trampólínum.

Þá heyrum við í kynjafræðingi sem hefur miklar áhyggjur af svokölluðu hundaflauti valdamanna og bakslagi í mannréttindabaráttu. Við kíkjum einnig á nýtt húsnæði Blóðbankans í Kringlunni og verðum í beinni útsendingu frá opnunarhófi RIFF kvikmyndahátíðar.

Í Sportpakkanum hitum við upp fyrir Ryderbikarinn í golfi sem hefst á morgun og í Íslandi í dag fer Vala Matt í ræktina með leikaranum Björgvin Franz sem stígur handleggsbrotinn á stokk í Borgarleikhúsinu þessa daga.

Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Sýnar, Bylgjunnar og Vísis klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×