Handbolti

Hundfúll út í Refina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jaron Siewert á hliðarlínunni með Refunum.
Jaron Siewert á hliðarlínunni með Refunum. vísir/getty

Afar óvæntar vendingar urðu í þýsku úrvalsdeildinni á dögunum er þjálfari meistara Füchse Berlin, Jaron Siewert, var rekinn fyrirvaralaust frá félaginu.

Þessi ákvörðun stjórnar Füchse kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Eftir að hafa tekið sér tíma í að jafna sig hefur Siewert loks rofið þögnina.

„Ég er hundfúll út í stjórnina fyrir að taka þessa ákvörðun og ég hreinlega skil hana ekki. Þetta var afar sárt,“ segir Siewert.

„Við höfðum sammælst um að gera nýjan samning og er ég hélt á fundinn bjóst ég við að skrifa undir hann en ekki að vera rekinn. Þessi ákvörðun kom algjörlega aftan að mér.“

Siewert segist hafa skilning á því að félög taki sínar ákvarðanir með hagsmuni félagsins í huga. Engu að síður skilji hann ekkert í þessu.

„Það var mikilvægt fyrir mig að fá þær upplýsingar að leikmenn höfðu ekkert með ákvörðunina að gera. Það er líka svekkjandi að munnlegt samkomulag sem ég hafði gert hafði engu þýðingu er upp var staðið. Pressa frá stuðningsmönnum var líka notað sem afsökun en þessi meinta óánægja stuðningsmanna kom frá félaginu og þaðan í blöðin. Það er einnig óskiljanleg hegðun.“

Daninn Nikolaj Krickau var ráðinn í hans stað og hefur tapað fyrstu leikjunum sem þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×