Innlent

Tæp­lega fimm­tíu komast ekki um borð eftir að neyð­ar­renna var opnuð fyrir mis­tök

Agnar Már Másson skrifar
Neyðarrenna í vél Icelandair opnaðist fyrir mistök. Mynd úr safni.
Neyðarrenna í vél Icelandair opnaðist fyrir mistök. Mynd úr safni. kmu

Tæplega fimmtíu manns sem ætluðu að fljúga með Icelandair frá Kaupmannahöfn til Íslands klukkan 14 í dag verður ekki hleypt um borð í vélina vegna öryggisráðstafanna þar sem neyðarrenna í vél Icelandair var óvart virkjuð við lendingu í Kaupmannahöfn fyrr í dag og því er ekki allur öryggisbúnaður virkur.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta hjá flugfélaginu, segir að neyðarbúnaður, nánar til tekið neyðarrenna, hafi fyrir slysni verið virkjaður þegar vélin lenti á Kastrúpvelli í Danmörku fyrr í dag, sunnudag, og því var ekki allur öryggisbúnaður virkur.

Þess vegna hafi þurft að fækka farþegum í fluginu, þar sem að umfang öryggisbúnaðar sé ákvarðað út frá fjölda farþega. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Þannig voru alls 48 farþegar sem ekki komust um borð í flugið sem þeir áttu bókað klukkan 14 að staðartíma. Fluginu hefur reyndar verið frestað til klukkan 16 hið snemmsta vegna málsins. Flugvélin, sem nefnist Hlöðufell, er með rými fyrir allt að 270 farþega.

Ásdís segir að Icelandair þyki atvikið miður en að þessir tæplega fimmtíu farþegar verði færðir á önnur flug og muni komast á sinn áfangastað í dag eða á morgun.

Veistu meira um málið? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×