Lífið

Ekki allt sem sýnist í Coldplay-skandalnum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kristin Cabot og Andrew Cabot með tveimur börnum hans af fyrra hjónabandi og önnur mynd af henni með Andy Byron, fyrrverandi forstjóra Astronomer.
Kristin Cabot og Andrew Cabot með tveimur börnum hans af fyrra hjónabandi og önnur mynd af henni með Andy Byron, fyrrverandi forstjóra Astronomer.

Fyrrverandi eiginmaður Kristinar Cabot, mannauðsstjóra tæknifyrirtækisins Astronomer, sem var gripin glóðvolg í faðmlögum með Andy Byron, forstjóra Astronomer, á Coldplay-tónleikum í júlí, segir þau þegar hafa ætlað að skilja fyrir fjölmiðlafárið.

Cabot og Byron birtust á stórum sjá á tónleikum Coldplay í júlí en brugðust við með því að snúa sér undan og reyna að komast frá myndavélinni. „Annað hvort eru þau að halda fram hjá eða þau eru bara mjög feimin,“ sagði Chris Martin, söngvari Coldplay, um kollegana en klippan fór í gríðarlega dreifingu á samfélagsmiðlum og varð að fréttamáli.

Á daginn kom að bæði Byron og Cabot voru gift fjölskyldufólk sem skýrði viðbrögðin. Þau sögðu jafnframt bæði af sér hjá Astronomer eftir að málið kom upp. 

Nýverið bárust svo fréttir af því að Cabot hefði sótt um skilnað við eiginmann sinn, Andrew Cabot, forstjóra fyrirtækisins Privateer Rum.

Skilnaðurinn lá í loftinu

Talskona hins 61 árs gamla Andrew Cabot tjáði sig við People í fyrradag og sagði þar að ekki væri allt sem sýndist í málinu. Hann sagði að hann og Kristin hefðu þegar verið búin að ákveða að skilja og verið skilin að borði og sæng þegar tónleikarnir fóru fram.

„Ákvörðun þeirra um að skilja hafði þegar verið tekin fyrir þetta kvöld,“ sagði talskona Cabot. Samkvæmt NBC News þá sótti Kristin Cabot um skilnað í Portsmouth í New-Hampshire þann 13. ágúst síðastliðinn.

Sjá einnig: Stjórn fyrirtækisins hefur formlega rannsókn

Talskonan sagði jafnframt að nú þegar skilnaðarumsóknin væri opinber vonaðist Andrew til þess að yfirlýsing hans myndi binda enda á sögusagnir og gefa fjölskyldunni loksins næði frá fjölmiðlum og samfélagsmiðlaumræðu.

@instaagraace trouble in paradise?? 👀 #coldplay #boston #coldplayconcert #kisscam #fyp ♬ original sound - grace

„Engar frekari yfirlýsingar verða gefnar út,“ sagði talskonan jafnframt. Kristin Cabot hefur ekki tjáð sig um málið.

Andrew á tvö börn úr fyrra hjónabandi en hann og Kristin eiga ekki börn saman. Hvorki Kristin né Byron hafa tjáð sig um samband sitt og ekki liggur fyrir hvort hjónaband Byron hafi staðið af sér Coldplay-faðmlagið og storminn í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.