Erlent

Europol og Banda­ríkin lýsa eftir úkraínskum tölvuþrjót

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjamenn hafa heitið tíu milljón dala verðlaunum fyrir upplýsingar um Viktorovych.
Bandaríkjamenn hafa heitið tíu milljón dala verðlaunum fyrir upplýsingar um Viktorovych.

Úkraínskur tölvuþrjótur hefur ratað á lista yfir þá glæpamenn sem lögregluyfirvöld í Evrópu hafa hvað mestan áhuga á að fanga. Bandaríkjamenn hafa heitið tíu milljónum dala fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku mannsins.

Maðurinn heitir Volodymyr Viktorovych, er 28 ára gamall, 180 sentímetrar á hæð og gengur meðal annars undir nöfnunum Deadforz, Boba, Farnetwork, Msfv og Volotmsk á netinu.

Viktorovych er grunaður um að hafa notað LockerGoga til að ráðast inn í tölvukerfi og taka gögn í gíslingu. Hann er meðal annars grunaður um að hafa beitt hugbúnaðinum gegn stóru álfyrirtæki í Noregi árið 2019 og til að fremja fleiri árásir á heimsvísu.

Fyrirtækið er ekki nafngreint í auglýsingunni eftir Viktorovych en líklega er um að ræða Norsk Hydro.

Viktorovych er sagður eftirlýstur í nokkrum ríkjum en rannsókn málsins hefur meðal annars náð til Frakklands, Þýskalands, Bretlands, Sviss og Úkraínu, auk Bandaríkjanna. 

Nokkrir samstarfsmanna hans eru sagðir hafa verið handteknir í Úkraínu, þeirra á meðal hugbúnaðarsmiðir og einstaklingar sem eru grunaðir um að hafa komið að peningaþvætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×