Enski boltinn

Orðin dýrust í sögu kvennaboltans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grace Geyoro skorar í leik Frakklands og Þýskalands í átta liða úrslitum á EM í sumar.
Grace Geyoro skorar í leik Frakklands og Þýskalands í átta liða úrslitum á EM í sumar. epa/GEORGIOS KEFALAS

London City Lionesses hafa keypt frönsku landsliðskonuna Grace Geyoro frá Paris Saint-Germain fyrir metverð. London City greiddi 1,4 milljón punda fyrir Geyoro sem er dýrasti leikmaður í sögu kvennaboltans.

London City eru nýliðar í ensku deildinni en hafa verið virkir á félagaskiptamarkaðnum og keypt hvorki fleiri né færri en sextán leikmenn fyrir tímabilið sem hefst um helgina. Meðal leikmanna sem London City hefur fengið eru Danielle van de Donk, Nikita Parris og Katie Zelem.

London City er í eigu hinnar vellauðugu Michele Kang sem á einnig Washington Spirit í Bandaríkjunum og Lyon í Frakklandi.

Geyoro, sem er 28 ára, hefur leikið 103 landsleiki fyrir Frakkland og skorað 23 mörk. Hún varð einu sinni franskur meistari með PSG og þrisvar sinnum bikarmeistari.

Í síðasta mánuði gerði Orlando Pride mexíkóska kantmanninn Lizbeth Ovalle að dýrasta leikmanni í sögu kvennaboltans þegar félagið greiddi Tigres UNAL 1,1 milljón punda fyrir hana. Metið stóð ekki lengi því Geyoro er nú orðin dýrasta fótboltakonan í sögunni. Það met hefur verið slegið fjórum sinnum í ár.

London City mætir Arsenal í 1. umferð ensku deildarinnar á morgun en Geyoro gæti þreytt frumraun sína með liðinu gegn Manchester United um þarnæstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×