Bíó og sjónvarp

Sophie Turner verður Lara Croft

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sophie Turner verður Lara Croft sem sést gjarnan í gráum hlýrabol og brúnum stuttbuxum.
Sophie Turner verður Lara Croft sem sést gjarnan í gráum hlýrabol og brúnum stuttbuxum. EPA

Breska leikkonan Sophie Turner, sem er þekktust fyrir að leika Sönsu Stark í Game of Thrones, mun leika fornleifafræðinginn og ævintýrakonuna Löru Croft í sjónvarpsþáttunum Tomb Raider á Prime Video.

Grein var frá ráðningunni í gær en höfundur sjónvarpsþáttanna er Phoebe Waller-Bridge, sem skrifaði og lék aðalhlutverkið í þáttunum Fleabag og framleiddi spennuþættina Killing Eve. Þáttaröðin verður fyrsta verkefnið sem kemur út úr stórum samningi Waller-Bridge við Amazon sem var gerður 2019.

Tomb Raider byggir á samnefndum tölvuleikjum um Löru Croft sem komu fyrst út 1996 og eru orðnir 31 talsins. Segja má að karakterinn sé kvenkyns nútímaútgáfa af Indiana Jones, fornleifafræðingur sem lendir í ævintýrum og berst við óþokka í leiðinni. 

Þættirnir eru fjórða skiptið sem karakterinn kemur á stóra skjáinn, Angelina Jolie lék Croft tvisvar í Lara Croft: Tomb Raider (2001) og Lara Croft: Tomb Raider – The Cradle of Life (2003) og svo lék hin danska Alicia Vikander persónuna í Tomb Raider (2018)

Hin 29 ára Sophie Turner skaust upp á stjörnuhimininn í þáttunum Game of Thrones (2011-19) áður en hún lék Jean Grey í tveimur myndum um X-menninna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.