Handbolti

Ómar með átta úr átta og Donni allt í öllu í sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson áttu báðir frábæran leik í kvöld, í sitt hvoru landinu.
Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson áttu báðir frábæran leik í kvöld, í sitt hvoru landinu. vísir/Anton

Ómar Ingi Magnússon skoraði úr öllum átta skotum sínum fyrir Magdeburg í kvöld, í 34-28 sigri á Eisenach. Íslenska tríóið skoraði samtals fimmtán mörk í leiknum fyrir Magdeburg. Íslendingar voru einnig að spila í Danmörku og Portúgal.

Ómar skoraði eins og fyrr segir átta mörk, þar af fimm af vítalínunni, og klikkaði ekki á skoti. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði svo fimm mörk og Elvar Örn Jónsson tvö. Ómar og Gísli áttu svo þrjár stoðsendingar hvor.

Einar Þorsteinn Ólafsson var svo í liði Hamburg sem tapaði hins vegar á heimavelli, 33-29 gegn Hannover-Burgdorf.

Fyrr í kvöld voru fleiri Íslendingar á ferðinni í Þýskalandi eins og lesa má um hér:

Í Danmörku skoraði Kristján Örn Kristjánsson, eða Donni, sjö mörk úr níu skotum, þar af ekkert af vítalínunni, þegar Skanderborg AGF vann tíu marka sigur gegn Grindsted, 33-23. Donni átti jafnframt fjórar stoðsendingar eða flestar allra í leiknum.

Elvar Ásgeirsson varð hins vegar að sætta sig við naumt tap með Ribe-Esbjerg gegn Mors-Thy á útivelli, 30-29, þar sem sigurmarkið kom á lokasekúndunni eftir að Elvar hafði lagt upp jöfnunarmark gestanna. Hann skoraði tvö mörk í leiknum og átti þrjár stoðsendingar.

Í Portúgal fögnuðu Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting öruggum sigri gegn Marítimo á útivelli, 36-29. Ekki liggur fyrir skýrsla úr þeim leik þegar þetta er skrifað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×