Enski boltinn

Andri Lucas flytur til Eng­lands

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andri Lucas skrifaði undir þriggja ára samning.
Andri Lucas skrifaði undir þriggja ára samning. blackburn rovers

Íslenski landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen er orðinn leikmaður Blackburn Rovers á Englandi. Hann kemur til félagsins frá KAA Gent í Belgíu og skrifar undir þriggja ára samning.

Andri er 23 ára gamall framherji sem sló í gegn hjá Lyngby á þarsíðasta tímabili þegar hann skoraði 15 mörk í 33 leikjum fyrir danska félagið.

Hann var síðan keyptur til KAA Gent, þar sem hann skoraði 5 mörk í 46 leikjum á síðasta tímabili.

Talið er að Blackburn Rovers hafi borgað um tvær milljónir evra fyrir Andra og hann undirritaði þriggja ára samning, með möguleika á eins árs framlengingu.

Áður en Andri fer á fullt með nýjum liðsfélögum sínum í ensku Championship deildinni ferðast hann hingað til lands í landsliðsverkefni, fyrstu tvo leikina í undankeppni HM gegn Aserbaísjan heima og Frakklandi ytra.

Andri spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2021 og hefur síðan skorað 9 mörk í 34 landsleikjum. 

Hann hefur áður spilað í íslensku treyjunni með eldri bróður sínum, Sveini Aroni, og gæti í næstu leikjum spilað með yngri bróður sínum, Daníel Guðjohnsen, sem er nýliði í hópnum sem hittist eftir helgi. Þeir eru synir fyrrum landsliðsfyrirliðans Eiðs Smára Guðjohnsen. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×