Enski boltinn

Spurs að landa Xavi Simons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xavi Simons hefur leikið 28 leiki fyrir hollenska landsliðið og skorað fimm mörk.
Xavi Simons hefur leikið 28 leiki fyrir hollenska landsliðið og skorað fimm mörk. epa/JUSSI ESKOLA

Flest bendir til þess að hollenski landsliðsmaðurinn Xavi Simons gangi í raðir Tottenham frá RB Leipzig.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum er Simons staddur á Englandi og hefur lokið læknisskoðun hjá Tottenham.

Talið er að Spurs greiði Leipzig 51,8 milljónir punda fyrir Simons. Að öllum líkindum verður gengið frá félagaskiptunum á næstu klukkutímunum.

Simons var sterklega orðaður við Chelsea í sumar en hann virðist nú að öllum líkindum vera á leið til annars Lundúnaliðs.

Spurs tókst ekki að ganga frá kaupum á ensku landsliðsmönnunum Morgan Gibbs-White og Eberechi Eze en er nú að landa hinum 22 ára Simons sem lék með Leipzig í tvö tímabil. Hann skoraði 22 mörk í 78 leikjum fyrir þýska liðið.

Simons var í yngri liðum Barcelona og Paris Saint-Germain og lék nokkra leiki fyrir aðallið PSG. Hann var svo lánaður til PSV Eindhoven tímabilið 2022-23 þar sem hann skoraði 22 mörk í 48 leikjum.

Tottenham hefur unnið báða leiki sína í ensku úrvalsdeildinni til þessa án þess að fá á sig mark.

Spurs tekur á móti Bournemouth klukkan 14:00 á morgun. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×