Sport

Vel studdur í brautar­meti: „Mjög sér­stakt og keyrði mig virki­lega mikið á­fram“

Sindri Sverrisson skrifar
Baldvin Þór Magnússon setti brautarmet í 10 km hlaupi og mætti svo í viðtali í beinni útsendingu á Vísi.
Baldvin Þór Magnússon setti brautarmet í 10 km hlaupi og mætti svo í viðtali í beinni útsendingu á Vísi. Vísir

Íslandsmethafinn Baldvin Þór Magnússon hljóp til sigurs í tíu kílómetra hlaupi í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, á nýju brautarmeti, eða 29 mínútum og 34 sekúndum. Hann fann virkilega fyrir vindi og stuðningi í hlaupinu.

Baldvin á sjálfur Íslandsmetið í 10 km götuhlaupi, frá árinu 2023, er Akureyringurinn hljóp á 28:51 í Leeds á Englandi.

Hann ætlaði sér að gera enn betur í gær en fékk vindinn í fangið ef svo má segja. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann næði að slá brautarmetið sem Hlynur Andrésson, nýkrýndur Íslandsmeistari í maraþoni, setti fyrir ári síðan þegar hann hljóp tíu kílómetrana á 30:24.

„Ég er bara sáttur með hvernig ég framkvæmdi hlaupið í þeim aðstæðum sem mér voru gefnar,“ sagði Baldvin. 

„Ég reyndi að láta mér líða vel fyrri fimm kílómetrana því ég vissi að það væri vindur seinni fimm. Ég vissi ekki að það yrði alveg svona mikill vindur. Ég fann virkilega fyrir honum. En ég stóð mig vel miðað við aðstæður svo ég er bara sáttur,“ sagði Baldvin í gær en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Baldvin eftir brautarmetið

„Mig langaði að hlaupa undir 28:51 sem er Íslandsmetið mitt. Það væri rosalega gaman að slá það á Íslandi. En nú er að byrja götutímabil hjá mér, þetta var fyrsta götuhlaupið, og ég er bara sáttur með hvernig formið er,“ sagði Baldvin.

Þessi margfaldi Íslandsmethafi (1.500 m, 3.000 m, 5.000 m hlaup, og 5 og 10 km götuhlaup, auk 1.500 og 3.000 m innanhúss) sem oftar keppir erlendis naut sín í botn í Reykjavík í gær:

„Það er mjög góð stemning. Ég veit ekki hvað það voru margir að kalla „Áfram Baldvin!“ Það var mjög sérstakt og keyrði mig virkilega mikið áfram,“ sagði Baldvin sem verður á Íslandi í örfáa daga en heldur svo út og stefnir á að keppa aftur í 10 km götuhlaupi í byrjun október.


Tengdar fréttir

„Horft illum augum á þannig taktík í hlaupa­heiminum“

Íslandsmeistarinn Hlynur Andrésson segir það frekar ósmekklegt hvernig Portúgalinn José Sousa nýtti sér Hlyn sem skjól fyrir vindinum stærstan hluta Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í gær. Sousa hafi þó verðskuldað sigurinn og Hlynur ekki átt sinn besta dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×