Fótbolti

Lehmann færir sig um set á Ítalíu

Siggeir Ævarsson skrifar
Lehmann leikur á nýjum slóðum á Ítalíu á komandi tímabili
Lehmann leikur á nýjum slóðum á Ítalíu á komandi tímabili Mynd Como FC

Skærasta stjarna kvennaknattspyrnunnar, utan vallar í það minnsta, Alisha Lehmann, mun leika með Como FC í ítölsku deildinni á komandi tímabili en hún kemur til liðsins frá meisturum Juventus.

Lehmann hefur vægast sagt vakið mikla athygli utan vallar en hún er með tæplega 17 milljón fylgjendur á Instagram og 12 milljón á TikTok. Innan vallar hefur einstaklingsárangurinn ekki verið alveg á pari við árangurinn á samfélagsmiðlum en á liðnu tímabili skoraði hún tvö mörk í 16 deildarleikjum með Juventus.

Hún lyfti engu að síður þremur bikurum með liðinu en liðið vann bæði deildina og báðar bikarkeppnirnar á Ítalíu. Í stað þess að taka slaginn með meisturunum á ný og spila í Evrópukeppninni færir hún sig yfir til Como en liðið endaði í sjöunda sæti af tíu liðum á síðasta tímabili. 

Lehmann segir skiptin eiga sér eðlilega skýringu, en Como er sjálfstætt kvennalið og ekki með tengingu við neitt karlalið þrátt fyrir að það leiki vissulega lið með sama heiti í Seríu A karlamegin. Lehmann, sem er 26 ára, gerði þriggja ára samning við liðið.

„Þetta er sjálfstætt félag með algjöran fókus á kvennaknattspyrnu og það skiptir mig virkilega miklu máli. Ég sá strax að þetta er ekki eins og hvert annað lið. Þetta er verkefni með ákveðið markmið og framtíðarsýn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×