Sport

Fyrsta mamman til að verða númer eitt í heiminum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Townsend með syni sínum Adyn Aubrey sem kom í heiminn í mars 2021. 
Townsend með syni sínum Adyn Aubrey sem kom í heiminn í mars 2021.  @tay_taytownsend

Bandarísku tenniskonunni Taylor Townsend tókst að skrifa nýjan kafla í tennissöguna í þessari viku eftir að í ljós kom að hún er númer eitt á heimslistanum meðal þeirra í heiminum sem keppa í tvíliðaleik kvenna

Townsend og tvíliðaleiksfélagi hennar Shuai Zhang tryggðu sér efsta sætið á heimslistanum með því að komast í úrslitaleikinn á WTA 500 Mubadala Citi mótinu sem fór fram í Washington DC í Bandaríkjunum.

Með því varð það staðfest að Townsend er fyrsta mamman til að verða númer eitt í heiminum á styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins, WTA.

„Þetta er ánægjulegasta ferðalagið sem ég gat farið í,“ sagði Taylor Townsend eftir leikinn.

„Að hafa náð efsta sætinu á heimslistanum eftir að hafa eignast son minn. Ég hef þurft að komast í gegnum svo mörg próf og svo mikið mótlæti en tókst samt að afreka hluti sem ég hafði aldrei áður afrekað,“ sagði Townsend.

„Ég er búin að vinna tvö risamót og vinna Masters 1000 mótið. Að verða sú besta í heimi er það stórkostlegasta við þetta allt saman,“ sagði Townsend.

Townsend er aðeins þrettánda bandaríska tenniskonan sem kemst í efsta sæti heimslistanum í tvíliðaleik. Hinar eru Martina Navratilova, Pam Shriver, Gigi Fernandez, Lindsay Davenport, Corina Morariu, Lisa Raymond, Liezel Huber, Venus Williams, Serena Williams, Bethanie Mattek-Sands, Coco Gauff og Jessica Pegula.

Townsend er 29 ára gömul en sonur hennar, Adyn Aubrey, kom í heiminn í mars 2021. Hann er því orðinn fjögurra ára gamall og upplifir nú að eiga mömmu sem er best í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×